fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkipulagsmálOpið bréf til stjórnvalda vegna Óla Runs túnsins

Opið bréf til stjórnvalda vegna Óla Runs túnsins

Þrátt fyrir ítrekaðar skriflegar óskir fást engin svör frá stjórnkerfi Hafnarfjarðar

Opið bréf til formanna umhverfis- og framkvæmdaráðs og skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjörður 4. mars 2018. Við undirrituð, íbúar við Brekku- og Lindarhvamm í suðurbæ Hafnarfjarðar, sendum þann 14. ágúst 2017, erindi á umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar. Erindið var sent í kjölfar tveggja funda með formanni skipulags- og byggingaráðs um framtíð Óla Runs túns sem ekki leiddu til niðurstöðu. Forsaga málsins voru endurteknar umræður í ráðinu um mögulega byggð á túni, einum af fáum grænum svæðum í grennd við miðbæ Hafnarfjarðar, sem í gildandi aðalskipulagi er grænt svæði.  Svæðið er vissulega grænt en ekki þó í þeim skilningi sem við höfum á grænum svæðum því bæjaryfirvöld hafa með engum hætti sinnt svæðinu, fyrir utan slátt á sumrin, eins og grænum svæðum er gjarnan sinnt í samfélögum sem leggja áherslu á lífsgæði og heilsu íbúa, t.d. með góðum samgönguleiðum, göngu- og hjólastígum og grænum svæðum þar sem hægt er að leika sér, setjast niður og spjalla eða bara njóta þess að vera til.

En þá að erindi þessa bréfs.  Þrátt fyrir ítrekaðar skriflegar óskir um svör varðandi afgreiðslu erindisins hafa bæjaryfirvöld enn ekki séð ástæðu til að svara því með formlegum hætti.  Af fundargerðum ráðanna tveggja má ekki annað ráða en að erindið hafi enn ekki fengið afgreiðslu heldur hafi einungis verið tekið til umræðu.  Ef marka má fundargerðirnar, sem segja hins vegar lítið þeim sem vilja vita, er umræða um Óla Runs tún og framtíð þess enn í fullum gangi hjá kjörnum fulltrúum.  Fulltrúarnir gleymdu hins vegar, líklegast óvart, að segja okkur íbúum sem höfum hagsmuni af málinu, frá því.  Við höfum hins vegar einlægan áhuga og vilja til að taka þátt í því að hlúa að því græna í umhverfinu okkar.  Hún er vond þessi tilfinning að rödd okkar íbúa skipti ekki máli. Að umhverfið sem við búum í skipti ekki kjörna fulltrúa máli. Því spyrjum við, ætla bæjaryfirvöld að láta túnið í friði og byggja upp raunverulegt grænt svæði eins og gildandi aðalskipulag kveður á um?  Við sem búum í nágrenninu viljum sjá þarna garð – almenningsgarð með útsýni yfir höfnina, í nálægð við sundlaugina – með aðstöðu til útiveru og samvista – garð fyrir alla Hafnfirðinga.

Árið 1961 voru ekki mörg hús við Óla Runs túnið. Þarna er verið að grafa fyrir sökklum á húsi nr. 4 við Brekkuhvamm.

Nú standa fyrir dyrum kosningar í bæjarfélaginu okkar.  Undanfari kosninganna eru prófkjör og uppstillingar.  Mikið af góðu og öflugu fólki sem ber hag bæjarfélagsins fyrir brjósti býður sig nú sem endranær fram. Enginn efast um heilindi þeirra sem bjóða sig fram til þjónustu fyrir bæjarfélag sitt.  Það er á hinn bóginn eitt að hafa vilja til að leggja fram tíma í þágu bæjarfélags eða hafa sýn á það hvert skal halda.  Við hlökkum til að heyra frá ykkur hið fyrsta því við söknum skýrrar og heildrænnar sýnar á framtíð og framkvæmdum í bæjarfélaginu okkar.

Áhugasamir geta nálgast erindi okkar og margs konar upplýsingar um Óla Runs tún og sögu þess á Facebook hóp áhugamanna um túnið.

Brynjólfur Jónsson
Guðvarður Fannberg Ólafsson
María Kristín Gylfadóttir
Þórir Ingvarsson

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2