Hafrannsóknarstofnun mun í maí á næsta ári flytjast í nýtt glæsilegt húsnæði að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.
Byggingin verður 4080 m² skrifstofu- og rannsóknarými, tengd 1400 m² eldri byggingu sem í verður geymsla, verkstæði og útgerðaraðstaða.

Hafnfirska arkitektastofan Batteríið arkitektar hannaði húsið. Við hönnunina eru umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi og reynt að halda kolefnisspori byggingarinnar í lágmarki. Aðeins undirstöðurnar verða steyptar en burðarvirki hússins er krossviður, krosslímdar þykkar viðareiningar sem koma tilsniðnar frá Austurríki. Hluti af þeim verður sýnilegur innanhúss. Milligólf verða einnig timbureiningar en ofan á þeim verður malarlag og þunn steypt gólf með gólfhita.
Hratt verður unnið við byggingu hússins en skv. samningi verður húsið afhent stofnuninni í maí 2019.

Þá hefur Hafnarfjarðarhöfn boðið út og gengið frá samningi um framkvæmdir við Háabakka, nýjan hafnarkant fyrir rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar. Framkvæmdir við hafnarkantinn munu hefjast í lok sumars og lokið á sama tíma og húsið verður tilbúið.

Fyrsta skólfustungan var tekin við stutta athöfn 15. mars sl. þar sem Jón Rúnar Halldórsson hjá Fornubúðum eignarhaldsfélagi ávarpaði gesti og fagnaði þessum áfanga. Hann fékk svo þá Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Jón Gunnarsson þingmann Suðvesturkjördæmis til að taka fyrstu skóflustungurnar að hinu nýja húsnæði sem mun blasa við bæjarbúum úr miðbænum. Þeir notuðu til þess gamla saltskóflu frá Byggðasafninu sem hafði verið í notkun í hátt í heila öld og skóflu sem faðir Jóns Rúnars hafði átt.

