fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirBjört framtíð í upplausn - bæjarfulltrúi býr ekki í bænum!

Björt framtíð í upplausn – bæjarfulltrúi býr ekki í bænum!

Var ákvörðun bæjarstórnar um ótímabundið leyfi ólöglegt?

Upplausn ríkir í Bjartri framtíð og virðist sem atburðarrásin hafi hafist er Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir oddviti flokksins þáverandi formaður stjórnar Bjartrar framtíðar var hvatamaður að stjórnarslitum síðasta haust. Björt framtíð galt afhroð í kosningunum sem fylgdu og formaður flokksins Óttar Proppé sagði af sér.

Þrátt fyrir að framboð Bjartrar framtíðar í Norðurlandi vestra, sem Guðlaug leiddi, hafi fengið minnsta fylgi nokkurs framboðs Bjartrar framtíðar þá sat Guðlaug sem fastast í sæti formanns stjórnar sem þá var búin að taka við sem starfandi formaður flokksins. Það fór illa í félagsmenn Bjartrar framtíðar og var henni nánast skipað að segja af sér.

Þar var komin upp trúnaðarbrestur en fyrstu viðbrögð Guðlaugar var 15. febrúar þegar hún tilkynnti að leiðir hennar og Bjartrar framtíðar lægju ekki saman og að hún myndi ekki fara í framboð í vor fyrir flokkinn.

Tilkynnti um ótímabundin forföll

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Á fundi bæjarstjórnar 14. mars. sl. var tekið fyrir erindi frá bæjarfulltrúa Guðlaugu Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur sem hafði tilkynnt um ótímabundin forföll sem bæjarfulltrúi. Varamaður Guðlaugar, Borghildur Sölvey Sturludóttir, tók þá hennar sæti í bæjarstjórn og þann tíma sem forföll standa yfir og telst aðalmaður í bæjarstjórn þann tíma.

Staðfesti hún við Fjarðarfréttir að ástæðan væri að hún hefði hreinlega tæmt orkubirgðir sínar og þyrfti að byggja þær upp aftur.

Í 30. grein sveitarstjórnarlaga segir hins vegar að aðeins sé hægt að veita leyfi um tiltekinn tíma eða til loka kjórtímabilsins.

„Telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, getur sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn, að hans ósk, um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.“

Tilkynnti úrsögn úr Bjartri framtíð

Sl. miðvikudag tilkynnti Guðlaug svo á opinni Facebook færslu að hún og Einar Birkir Einarsson hafi sagt sig úr Bjartri framtíð og muni starfa út kjörtímabilið sem óháðir bæjarfulltrúar. Segir hún ákvörðunina ekki hafa áhrif á meirihlutasamstarfið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Einar Birkir fluttur í Kópavog

Einar Birkir Einarsson

Einar Birkir Einarsson er fluttur úr Hafnarfirði og er skv. upplýsingum á vef Íslandspóst skráður til heimilis í Kópavogi. Hins vegar er hann skráður með lögheimili að Grænukinn 1 og hafa Fjarðarfréttir óskað eftir svörum við því hvort hann telji eðlilegt að bæjarfulltrúi sem flutt hefur í Kópavog skrái lögheimili sitt í Hafnarfirði til að halda sæti sínu í bæjarstjórn. Beðið er svara frá honum.

Skv. 30. grein sveitarstjórnarlaga skal bæjarfulltrúi víkja úr sveitarstjórn missi hann kjörgengi.

„Þegar sveitarstjórnarmaður flytur úr sveitarfélagi um stundarsakir má sveitarstjórn ákveða, að ósk hans, að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Slík ákvörðun skal tekin áður en sveitarstjórnarmaður flytur um stundarsakir. Sé ekki tekin ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein missir sveitarstjórnarmaður kjörgengi samkvæmt hefðbundnum reglum.“

Það er því ljóst að ef bæjarfulltrúi flytur úr bæjarfélaginu missir hann sæti sitt í bæjarstjórn og sá leikur að skrá lögheimili sitt annars staðar en maður býr er brot á lögum um skráningu lögheimilis.

Sveitarstjórnarlög

Nýtt óháð framboð og breyting í ráðum og nefndum

Guðlaug upplýsir um fund í morgun með þeim kjarna sem vinnur saman í nefndum og ráðum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hefur hug á því að gera það áfram eftir úrsögn bæjarfulltrúa úr Bjartri framtíð. Segir hún að verið sé að endurskoða mönnun í nefndir og ráð og leggja drög að nýju óháðu framboði til að fylgja eftir þeim góðu verkum sem Björt framtíð í Hafnarfirði hefur unnið að á yfirstandandi kjörtímabili.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2