Ég á góðar æskuminningar úr Hafnarfirði. Allt innan seilingar, skólinn og íþróttahúsið, lifandi miðbær með verslun, góðri þjónustu og kvikmyndahúsum og hraunið einstakt til leikja og útivistar. Svo liðu árin og kom að því, þegar við hjónin áttum von á okkar fyrsta barni, að ákveða hvar við vildum búa og ala börnin okkar til frambúðar. Hafnarfjörður varð fyrir valinu. Hér var fasteignaverð hagstætt, lægri leikskólagjöld og búið vel að börnum, góður skóli, frístundastyrkir vegna íþrótta- og tómstunda og öflugt félagslíf. Þá voru jafnaðarmenn í meirihluta við stjórn Hafnarfjarðar.
Álögur og einkavæðing Íhaldsins
Það skiptir máli fyrir unga fólkið að hafa aðgang að góðu og hagkvæmu húsnæði og vel sé búið að félagslegri þjónustu, sem taki mið af þörfum barnanna með sanngjörnum gjöldum. Það tekur á í samfélagi nútímans að stofna fjölskyldu. Báðir foreldrar á kafi í vinnu til þess að ná endum saman, standa í skilum með leiguna eða lánin á íbúðinni, og borga fyrir þjónustuna fyrir börnin. Þetta er fólkið sem á að vera í fyrirrúmi. Því miður hefur sú ekki verið raunin í tíð núverandi meirihluta við stjórn Hafnarfjarðar frekar en Íhaldsins við stjórn landsins. Þar eru aðrir í forgangi. Skattalækkanir gagnast aðeins hinum efnameiri sem er hyglað eins og frekast má, á meðan álögur eru auknar á fólkið með lægri tekjur. Rekstri ungbarnaleikskóla var t.d. hætt hér í bæ og hverfisleikskóla lokað. Þá eru álögur og gjöld á barnafjölskyldur í Hafnarfirði með því hæsta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Og nú boðar Íhaldið að nýloknum landsfundi sínum, að allt mögulegt og ómögulegt eigi að einkavæða, skólana og heilbrigðisþjónustuna líka. Bitur er reynslan af þeim tilraunum Íhaldsins í Hafnarfirði.
Fjölskyldubærinn Hafnarfjörður
Jafnaðarmenn hafa verið í forystu að standa vörð um þarfir barnafjölskyldna og enn búum við að þeim trausta grunni sem lagður var, þegar jafnaðarmenn fóru með stjórn bæjarins. Barátta jafnaðarmanna, að námsgögn væru á ókeypis fyrir grunnskólabörnin bar hér árangur, þegar núverandi meirihluti neyddist til að samþykkja það rétt fyrir skólabyrjun síðasta haust. Brýnt er að jafna aðstöðumun og gera öllum börnum kleift að stunda íþrótta- og tómstundarstarf. Koma verður á móts við unga fólkið með ódýrari búsetuúrræðum, gæta hófs í álögum og gjöldum og stefna á gjaldfrjálsan leikskóla. Enn fremur gildir náið samstarf við íþrótta- og tómstundafélögin sem taki m.a. mið af því að fjölskyldan hafi líka tíma fyrir sig saman. Gerum Hafnarfjörð aftur að fyrirmyndarbæ fyrir fjölskylduna með Samfylkingunni.
Stefán Már Gunnlaugsson
skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Greinin birtist í Fjarðarfréttum 5. apríl 2018.