fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimUmræðanGlundroði í bæjarstjórn Hafnarfjarðar – í boði Sjálfstæðisflokksins

Glundroði í bæjarstjórn Hafnarfjarðar – í boði Sjálfstæðisflokksins

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Ein mikilvægasta forsenda þess að lýðræðissamfélög virki er að almenningur beri traust til mikilvægra stofnana sam­félagsins. Frá hruni hafa margar stofnanir landsins glímt við minnkandi traust almennings á þeim. Nægir að nefna hið háa Alþingi í því samhengi. Sömu lögmál gilda um bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það er því þyngra en tárum taki að fylgjast með þeim farsa og glundroða sem einkennt hafa störf bæjarstjórnar Hafnarfjarðar síðustu vikur og mánuði. Núver­andi meirihluti, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ber fulla ábyrgð á glundroðanum, sem grefur undan því trausti sem bæjarstjórn verður að njóta. Atburðarás síðustu daga og vikna er einfaldlega með þeim hætti að heiður bæjarstjórnar er að veði.

Virðingar­leysi Sjálfstæðisflokksins

Rekja má glundroðann til þess alvöru- og virðingarleysis sem Sjálfstæðis­flokkurinn sýndi bæjarstjórn þegar flokk­urinn lagði fram sýndartillögu síðasta sumar um byggingu tveggja knatthúsa í Hafnarfirði. Tillagan var eingöngu lögð fram í pólitískum tilgangi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í trausti þess að hún yrði aldrei samþykkt.

Meirhlutinn klofnaði þegar tillagan var afgreidd og hún var að sjálfsögðu felld í bæjarstjórn. Til marks um hversu lítil alvara fylgdi málum þá datt engum innan meirihlutans í hug að það myndi hafa þær afleiðingar að honum yrði slitið. Sjálfstæðis­flokkurinn hafði náð markmiði sínu, að gera sig gildandi í augum hagsmunaaðila en því miður var bæjarstjórn niðurlægð í leiðinni. Og nú er staðan sú að búið er að reka báða varabæjarfulltrúa samstarfs­flokksins, sem reyndust ekki nógu dyggir meðreiðarsveinar Sjálfstæðisflokksins, úr öllum nefndum og ráðum. Bæjarfulltrúi er kallaður úr veikindaleyfi og Sjálfstæðis­flokkurinn samþykkir að bæjarfulltrúi búi utan bæjarfélagsins en skrái lögheimili sitt í Hafnarfirði. Seinna atriðið er í besta falli löglegt en siðlaust og spurning hversu marga bæjarfulltrúa með slíka búsetu Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn að samþykkja til að halda völdum. Þetta eru afleiðingarnar af sýndarmennsku og blekkingum Sjálfstæðisflokksins síðasta sumar.

Almannahagur ráði för

Til þess að endurreisa virðingu og traust á bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur Samfylkingin áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð þar sem ákvarðanir eru teknar út frá almannahag. Flokkspólitískir hags­munir og aðrir sérhagsmunir mega ekki ráða för. Til að ró og festa einkenni á nýjan leik störf bæjarstjórnar Hafnarfjarðar er nauðynlegt að Samfylkingin fái sterka útkomu úr kosningunum í vor. Þannig verður tryggt að almannahagsmunir verði hafðir að leiðarljósi við stjórn bæjarins næstu fjögur árin.

Árni Rúnar Þorvaldsson
skipar 5. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2