Það var ánægjuleg stund á Ásvöllum síðasta fimmtudag, þann 12. apríl þegar nýr íþróttasalur var vígður formlega á 87 ára afmælisdegi félagsins. Salurinn mun bera nafnið Ólafssalur, í minningu Ólafs Rafnssonar, fyrrum forseta ÍSÍ og einn af máttarstólpum körfuboltadeildar Hauka allan sinn starfsferil.
Í upphafi þess kjörtímabils sem nú er að ljúka var stofnaður starfshópur um framtíðaruppbyggingu að Ásvöllum sem starfað hefur allt kjörtímabilið með forsvarmönnum félagsins og embættismönnum bæjarins. Fulltrúar Hauka hafa lagt gríðarlega vinnu og metnað í vinnu sína og eiga heiður skilið fyrir sinn þátt í því að hvergi var slakað á í að gera nýja salinn sem best úr garði fyrir þá fjölmörgu sem munu stunda þar æfingar. Sérstök áhersla var lögð á hljóðvist í salnum, led lýsingu í lofti sem gefur möguleika á mismunandi birtu og fullkomið hljóðkerfi. Aðstaða til æfinga og kennslu verður með besta móti í þessum nýja sal sem mun þjóna þremur skólahverfum auk þess að nýtast fyrir æfingar félagsins.
Uppbygging fyrir eigið fé
Þegar Hafnarfjarðarbær hóf byggingu hins nýja salar fyrir tveimur árum lauk tímabili stöðnunar sem varði frá hruni en á árunum eftir hrun frá árinu 2008 var einungis unnið að lúkningu verkefna sem áður hafði verið tekið ákvörðun um. Þetta er stórt skref fram á við og þau verða fleiri í íþróttabænum okkar sem býr að því að státa af mikilli fjölbreytni þegar kemur að ástundun íþrótta og tómstunda. Samvinna Hafnarfjarðarbæjar við ÍBH hefur í gegnum árin verið mikilvæg og sú forgangsröðun sem þar er lögð fram skiptir miklu máli við ákvörðun um næstu verkefni. Við Hafnfirðingar höfum borið gæfu til þess að vera samstíga í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem bærinn hefur staðið myndarlega að og þannig eigum við að vinna áfram til heilla fyrir bæinn okkar.
Helga Ingólfsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs.