fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanFríar skólamáltíðir

Fríar skólamáltíðir

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Ekki alls fyrir löngu voru gjaldskrár sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu bornar saman. Sá samanburður var okk­ur Hafnfirðingum ekki í hag; Hafn­arfjörður reyndist dýrasta sveitarfélagið. Þótt vissulega sé gaman að vera fremstur í sínum flokki, þá er þetta sæti örugglega minnst eftirsóknar­vert. Hafn­ar­­fjörður þarf að vera sam­­­keppnisfær við önnur sveitar­félög þegar kemur að út­­gjöld­um fjöl­skyldufólks. Að öðrum kosti mun ekki takast að fá hingað nýja íbúa sem vilja setjast hér að og byggja upp samfélag þar sem manngildi ríkir ofar auðgildi.

Frí skólamáltíð er jafnréttismál

Nemendur verja drjúgum hluta dags í skipulögðu skóla- og frístundastarfi. Það er því mikilvægt að þeim standi þar til boða hollur og góður matur. Saman þurfum við að vinna að því að öllum hafnfirskum grunnskólabörnum gefist kostur á gjaldfrjálsum mat í hádeginu. Við ætlum að jafna stöðu hafnfirskra barna í þessum efnum og tryggja að þeim sé ekki mismunað vegna fjár­hagsstöðu. Vissulega þarf þetta að gerast í skrefum og yfir ákveðið tímabil enda er hér um að ræða stóra aðgerð. Byrjað verður á yngstu börnunum og unnið svo áfram. Framsókn og óháðir munu hefja undir­bún­ing þessa, strax í sumar, veiti bæjarbúar okkur brautar­gengi til góðra verka.

Sameinumst um að gera vel

Kostnaður fjölskyldufólks er of mikill í Hafnarfirði, sé hann borinn saman við nágrannasveitarfélögin. Þennan kostnað þarf að lækka og við þurfum að vinna saman að því með ýmsum aðgerðum. Þetta er ein aðgerð á þeirri vegferð. Hollt og gott mataræði er liður í bættri heilsu barna og gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki í skólastarfinu, hegðun nemenda batnar og ánægja eykst. Við eigum að sameinast um velferð barnanna okkar og forgangsraða í þeirra þágu. Við erum sterkari saman.

Ágúst Bjarni Garðarsson
oddviti Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2