fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanGrunnskólarnir okkar!

Grunnskólarnir okkar!

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Í Hafnarfirði eigum við afbragðs grunnskóla sem mannaðir eru miklu og góðu fagfólki. En þetta fagfólk þarf faglegt rými og aðstæður til að rækja sitt starf eins og best verður á kosið. Það þarf að njóta trausts og virðingar svo það blómstri í starfi.

Aukum faglegt sjálfstæði skóla

Við í Samfylkingunni teljum að skólarnir okkar verði best efldir innan frá með því að virkja þann mannauð og sköpunarkraft sem býr í starfsfólki hvers skóla. Þess vegna viljum við efla faglegt sjálfstæði skólanna og auka svigrúm þeirra til að móta eigin stefnu. Við viljum tryggja gott faglegt umhverfi sem laðar að gott starfsfólk og leita leiða til að draga úr álagi í starfi.

Skóli fyrir alla – þverfaglegar lausnir

Til að öll börn hafi sömu tækifæri til að þroskast og rækta sína hæfileika þurfum við að skapa umhverfi sem styður við og hlúir að hverju barni. Til þess að svo megi verða þarf að styrkja og styðja við fagfólkið í skólunum.

Þverfaglegt samstarf kennara og annarra sérfræðinga úti í hverjum skóla er lykillinn að því að börn nái að þroska með sér þá eiginleika sem við teljum mikilvæga í nútímasamfélagi. Lausna- og þróunarteymi inni í hverjum grunnskóla með aðkomu þverfaglegs hóps s.s. kennara, þroskaþjálfa, iðjuþálfa, sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa og félagsráðgjafa er einn liður í að efla þjónustu við nemendur út frá þörfum hvers og eins.

Hlúum að og sýnum fagfólki þá virðingu sem það á skilið

Mannauður hvers skóla er mikils virði. Við verðum að rækta þann auð með öllum tiltækum ráðum og fá fleira gott fagfólk til liðs við okkur til að efla enn frekar það góða starf sem unnið er í skólunum. Mikilvægt skref í þeirri viðleitni er að sýna það í verki að við treystum á og virðum fagþekkingu þess góða starfsfólk sem í skólunum vinnur. Án þess náum við ekki að tryggja börnum og ungmennum jöfn tækifæri til menntunar og þroska, virkja styrkleika hvers og eins nemanda, efla frumkvæði hans og sköpunarkraft.

Höfum það hugfast!

Friðþjófur Helgi Karlsson
varabæjarfulltrúi og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2