fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanFrekari hugleiðingar um fasteignaskatta

Frekari hugleiðingar um fasteignaskatta

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir skrifar

Í grein minni sem birtist í Fjarðafréttum þann 26. apríl sl. fjallaði ég um umtalsverða hækkun fasteignaskatta í Hafnarfirði – umfram verðbólgu – á núverandi kjörtímabili. Í þessari grein er umfjöllunarefnið samanburður á fasteignasköttum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim samanburði kemur í ljós að við Hafnfirðingar borgum hæstu skattana.

Ef skoðaðar eru sömu eignir og í fyrri grein, þ.e. annars vegar 119 fermetra, 4 herbergja íbúð í Áslandi sem er með fasteignamat upp 40.750.000 krónur og hins vegar 172 fermetra einbýlishús í Setbergi sem er með fasteignamat upp á 59.450.000 krónur kemur í ljós að fasteignaskattarnir í Hafnarfirði eru 58% hærri fyrir íbúðina og 60% hærri fyrir einbýlishúsið en í Reykjavík en höfuðborgin er með lægstu skattana. Ef Hafnarfjörður er borinn saman við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu kemur í ljós að fasteignaskattarnir eru 22-46% hærri í Hafnarfirði en í hinum bæjarfélögunum fyrir íbúðina en 20-39% hærri fyrir einbýlishúsið.

Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir að hann sé hlynntur lágum sköttum og að núverandi meirihluti hafi lækkað fasteignaskattana í Hafnarfirði undanfarin ár. Það er alrangt. Hið rétta er að þeir hafa hækkað og þar að auki bera Hafnfirðingar hæstu skattana á höfuðborgarsvæðinu.

Í grein sem birtist í Fjarðarfréttum þann 9. maí sl. fjallaði Sigrún Sverrisdóttir um kostnaðinn sem hafnfirskir foreldrar bera af vistun barna á leikskólum og á frístundaheimilum. Sá kostnaður er umtalsvert meiri en foreldrar barna í nágrannasveitarfélögum bera af sambærilegri þjónustu.

Það er engan veginn ásættanlegt að íbúar Hafnarfjarðar þurfi að greiða meira fyrir þjónustu bæjarins en íbúar sveitarfélaganna hér í kring. Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða okkur Hafnfirðingum upp á þetta ástand.

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir
stærðfræðingur og skipar 8. sæti á lista Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2