fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanHellisgerði er perla Hafnarfjarðar

Hellisgerði er perla Hafnarfjarðar

Helga Ingólfsdóttir og Sverrir Jörstad Sverrisson skrifa

Skipulögð gróðursetning hófst í Hellisgerði vorið 1923 og því verður bæjarperla okkar Hafnfirðinga 100 ára eftir aðeins örfá ár. Hellisgerði skipar stóran sess í hugum bæjarbúa enda er garðurinn einstakur og hefur verið hluti af bæjarmynd okkar lengur en elstu menn muna.

Að því tilefni var skipaður starfshópur til að gera verkefna og umbótaáætlun fyrir garðinn þannig að á 100 ára afmæli garðsins verði hann til sóma fyrir alla Hafnfirðinga. Okkur sem falið var að sitja í starfshópnum var strax ljóst mikilvægi þess að horfa til sögu garðsins og tryggja til framtíðar að hann þjóni upphaflegu hlutverki sínu, sem er að vera „skemmtistaður þar sem bæjarbúar eiga þess kost að njóta ánægju og hvíldar“ svo vitnað sé í Magnamenn. Og enn fremur að „Vekja áhuga bæjarbúa á blóma og trjárækt og geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar“.

Í starfshópinn voru skipuð auk okkar, Þórunn Blöndal og fyrir Hafnarfjarðarbæjar Berglind Guðmundsdóttir, landslagsarkitekt og Ingibjörg Sigurðardóttir, garðyrkjustjóri Hafnarfjarðar.

Starfshópurinn sendi frá sér áfangaskýrslu með tillögum til Umhverfis- og framkvæmdaráðs þar sem lögð er áhersla á að sett verði í gang á þessu ári vinna við skipulag garðsins, mat á þörf fyrir þjónustuhús með skilgreindu hlutverki, ástandsmat og verðmat á gróðri, hleðslum og göngustígum og enn fremur að Hellisgerði verði skilgreint sem safn og geti þannig gengt menningar- og fræðsluhlutverki sínu til framtíðar.

Ljóst er að þegar farið er í vinnu sem skiptir eins miklu máli og framtíðarskipulag Hellisgerðis þá skiptir öllu máli að vandað sé til verka. Enda er hér um að ræða stolt bæjarbúa sem hefur verið okkur til yndisauka og búið til fjölda góðra minninga í hugum hvers og eins Hafnfirðings sem hefur orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að heimsækja garðinn og eiga þar stundir.

Helga Ingólfsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs.

Sverrir Jörstad Sverrisson
varamaður í umhverfis- og framkvæmdaráði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2