fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimUmræðanEnginn afsláttur af aðgengi

Enginn afsláttur af aðgengi

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir skrifar

Mannréttindi eru allra. Um þau þarf að standa vörð og tryggja að hvergi sé gefinn afsláttur af mannréttindum borgara. Píratar krefjast aðgengis  allra að samfélaginu, alltaf. Þess vegna vilja Píratar að Hafnarfjarðarbær sé sameinandi samfélag með fullri þátttöku fatlaðs fólks. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leikur hér lykilhlutverk. Þar segir: „til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“.

Píratar ætla að þrýsta á lögleiðingu samningsins. Innleiðingin þarf að vera í fullu samráði við fatlað fólk og endurspegla þjónustuþarfir þeirra.  Tryggja þarf aðgengi að öllu húsnæði og þjónustu bæjarins.

Markmið Pírata í þjónustu við fatlað fólk er afstofnanavæðing, fjölgun NPA samninga, að unnið sé markvisst gegn margþættri mismunun og ofbeldi gegn fötluðu fólki. Veruleikinn er sá að fatlað fólk verður fyrir margþættri mismunun og er í miklum áhættuhópi gagnvart ofbeldi.

Ferðaþjónustu fatlaðs fólks þarf að endurskoða í samráði, en samningar renna út á næsta ári. Hér er tækifæri fyrir Hafnarfjörð til þess að tryggja að ferðafrelsi og samfélagsþátttaka fatlaðs fólks sé tryggð með því að ferðaþjónusta fatlaðs fólks taki mið af þörfum notenda þjónustunnar.

Við gerð stefnumótunar, reglugerða og laga í málefnum fatlaðs fólks á að hafa fullt samráð við fatlað fólk frá upphafi til enda. Það er grundvallaratriði í allri mótun þjónustu sveitarfélagsins í málefnum fatlaðs fólks að það sé í fullu samráði við fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra. Píratar ætla Hafnarfirði leiðandi hlutverk í málefnum fatlaðs fólks með fötluðu fólki. Þannig vinna Píratar.

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir
skipar 1. sæti á lista Pírata í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2