fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanHvað er að frétta af Pírötum?

Hvað er að frétta af Pírötum?

Haraldur R. Ingvason skrifar

Ef Píratar hyrfu á morgun yrðu eftirmæli þeirra á þann veg að þeir hefðu á sínum skamma ferli náð að setja varanlegt mark á íslensk stjórnmál. Þeir hefðu verið kærkominn valkostur við gamla fjórflokkinn og þeir hefðu hent hinni úreltu vinstri/hægri skilgreiningu. Þeir hefðu ekki tengst neinum hagsmunaöflum og verið lausir við spillingu. Þeir hefðu stundað fagleg vinnubrögð, tekið upplýstar ákvarðanir og borið ábyrgð á þeim. Þeir hefðu aukið gegnsæi í stjórnsýslu og fjármálum, eflt réttindi einstaklingsins og valdeflt þá sem veikar hefðu staðið. Þeir hefðu staðið vörð um einstaklingsfrelsi, tjáningarfrelsi og mannréttindi í hvívetna. Þeir hefðu beitt sér fyrir auknu aðgengi borgarana að upplýsingum sem þá snerta og gert sitt besta til að efla þátttöku almennings í ákvarðanatöku með auknu borgaralýðræði.

En þótt ýmsir óski þess væntanlega heitt, þá hverfa Píratar ekki á morgun. Þess í stað má sjá Pírata víðar en nokkru sinni. Það er vegna þess að það er þörf fyrir Pirata. Þessi þörf er m.a. tilkomin vegna þess að þrátt fyrir loforð um bót og betrun í kjölfar hrunsins fyrir áratug síðan, er gamla Íslenska pólitíkin, pólitík leyndar og spillingar enn stunduð af fullum krafti. Pólitík þar sem gamlir flokkar stilla sé upp á ímynduðum ás og treysta á fagurgala, flokkshollustu og gullfiskaminni. Gamlir flokkar sem þrífast á að etja saman hagsmunum, landshlutum og málefnum til þess að reyna að tryggja eign áhrif.

Það er nefnilega allt gott að frétta af Pírötum. Raunar svo gott að nú gefst stærstum hluta landsmanna kostur á að kjósa þá í sínu sveitarfélagi. Píratar eru með byr í seglin sökum þess að stór hluti landsmanna hefur fengið nóg af vinnubrögðum gömlu pólitíkurinnar. Píratar hafa aflað sér trausts með heiðarlegri framgöngu hvar sem þeir koma fram og hafa sýnt í verki að þeim er alvara með stefnumálum sínum.

Haraldur R. Ingvason
skipar 5. sæti á lista Pírata í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2