Krossnefur er einn þeirra fugla sem numið hafa hér land á undanförnum árum. Þetta er smávaxin finka sem lifir í skógum Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu og lifir aðallega á grenifræjum og verpir hann í greniskógum. Ber goggurinn þess merki að hann er aðlagaður til að geta náð fræjum úr könglum og er nafn hans dregið af lögun goggsins.
Karlfuglinn er litskrúðugur, rauður og appelsínugulur en kvenfuglinn er gráleitur eða grágrænnn.
Starfsfólk Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hefur lengi laðað til sín fugla með því að fóðra þá á bretti og hafa margir sjaldgæfir fuglar sést þar og er svæðið orðið mjög vinsælt meðal fuglaljósmyndara, innlendra sem erlendra.
Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri félagsins segir að þegar gefið hafi verið sólberjafræ á fóðurbrettið hafi krossnefurinn tekið því fagnandi.