fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkólamálTæknifræðinám Háskóla Íslands til Hafnarfjarðar

Tæknifræðinám Háskóla Íslands til Hafnarfjarðar

Áfram samstarfsverkefni Keilis og Háskóla Íslands

Hafnarfjarðarbær og Háskóli Íslands hafa komist að samkomulagi um að háskólinn fái aðstöðu fyrir BS-nám í tæknifræði í Menntasetrinu við Lækinn nú í haust og mun kennsla hefjast strax á haustönn 2018.

Boðið hefur verið upp á tæknifræðinám til BS-gráðu á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keilis frá árinu 2009. Frá upphafi hefur starfsemin farið fram á Ásbrú í Reykjanesbæ samhliða uppbyggingu annarra námsgreina innan Keilis. Líkt og í öðrum verk- og tæknigreinum hefur á undanförnum árum orðið fækkun nýnema í tæknifræði og var á síðastliðnu skólaári ráðist í umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi námsins. Meðal úrræða var að bjóða upp á fyrsta árið í fjarnámi og rýmka inntökuskilyrðin þannig að einstaklingar með menntun í verk- og iðnnámsgreinum ættu greiðari aðgang að náminu. Þessar breytingar hafa nú þegar skilað árangri og fjölgar umsóknum í tæknifræðinámið milli ára.

Meðal annarra tillagna fulltrúa Háskóla Íslands og Keilis til að auka aðsókn var að færa tæknifræðinámið nær höfuðborgarsvæðinu. Í því augnamiði var ákveðið í sumar að kanna möguleika á því að flytja kennslu í tæknifræði í Menntasetrið í Hafnarfirði frá og með haustinu og voru áformin samþykkt í bæjarráði Hafnafjarðar þann 16. ágúst síðastliðinn. Nemendur munu þó um sinn áfram nýta sérhæfðar rannsóknarstofur og aðstöðu á Ásbrú, meðal annars í efnafræðirannsóknum og hátæknifræði.

Nemendafjöldi í flestum deildum Keilis hefur aukist á undanförnum árum og með auknu og fjölbreyttara námsframboði hefur skort kennslustofur í aðalbyggingu skólans á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þá hafa breyttir kennsluhættir kallað á verulegar breytingar á kennsluhúsnæðinu, þar á meðal fleiri opin rými, hópavinnuherbergi nemenda og nútímalegar og rýmri kennslustofur. Með flutning tæknifræðináms Háskóla Íslands í Menntasetrið við Lækinn mun skapast svigrúm til að hýsa allt annað bóklegt nám á vegum Keilis undir einu þaki.

Í tilkynningu frá Keili segir að forsvarsmenn Háskóla Íslands og Keilis árétta að áfram verði boðið upp á nám í tæknifræði samstarfi skólanna tveggja.

„Með breytingunum er vonast til þess að í framtíðinni verði hægt að byggja upp enn betri aðstöðu og öflugt tæknifræðinám í Hafnarfirði sem geti svarað bæði þörfum nemenda og kröfum atvinnulífsins,“ segir í tilkynningunni.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2