Í kvöld, fimmtudag kl. 20 verður haldið málþing í Hafnarborg í tengslum við sýninguna, Allra veðra von.
Sýningin fjallar um samband mannsins við veður. Eftir eitt versta sumar í manna minnum á suðvesturhorni landsins og öfga í veðri um heim allan er þetta viðfangsefni ofarlega í hugum manna. Listakonurnar nálgast viðfangsefnið hver með sínum hætti og sækja föng í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, loftslagsvísindi, upplifun og atburði líðandi stundar þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri. Sýningarskrá með viðtölum við fræðifólk og aðstandendur sýningarinnar verður fáanleg í afgreiðslu safnsins.
Á sýningunni eru verk eftir Höllu Birgisdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Ragnheiði Maísól Sturludóttur, Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur og Steinunni Lilju Emilsdóttur.
Þátttakendur málþingsins eru Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur, Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, Marta Sigríður Pétursdóttir, sýningarstjóri. Listakonurnar taka þátt í umræðum.
Boðið er upp á umræður og léttar veitingar og spjall í lokin.
Ummæli
Ummæli