fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirPólitíkRáðuneyti gerir ekki athugasemd við setu Guðlaugar á bæjarstjórnarfundi 11. apríl 2018

Ráðuneyti gerir ekki athugasemd við setu Guðlaugar á bæjarstjórnarfundi 11. apríl 2018

Telur bæjarstjórn hafa brotið ákvæði laga í boðun fundar og um fundarhlé

Þann 11. og 12. apríl 2018 óskaði Sigurður Örn Hilmarsson hrl., f.h. Borghildar Sölveyjar Sturludóttur og Péturs Óskarssonar, þáverandi varamanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, eftir því að ráðuneytið tæki til umfjöllunar tiltekin atriði í stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli þess stjórnsýslueftirlits sem ráðherra hefur með sveitarfélögum. Þau atriði sem óskað var því að ráðuneytið fjallaði um voru:

  1. Hvort seta bæjarfulltrúans Guðlaugar Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 11. apríl 2018, hafi samræmst ákvæðum sveitarstjórnarlaga um lengri forföll sveitarstjórnarmanna, sbr. 3. mgr. 31. gr. sveitarstjórnarlaga.
  2. Hvort þáverandi bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson hafi misst kjörgengi sitt vegna brottflutnings úr sveitarfélaginu og hafi því átt að víkja úr bæjarstjórn, sbr. 1. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga.
  3. Hvort boðun og framkvæmd fundar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 11. apríl 2018, þar sem meðal annars voru samþykktar tillögur að breytingum á skipan skipulags- og byggingarráðs og hafnarstjórnar sveitarfélagsins, hafi verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, sérstaklega 2. mgr. 15. gr. um gögn sem fylgja skuli fundarboði sveitarstjórnarfundar, 3. mgr. 15. gr. um auglýsingu dagskrár sveitarstjórnarfundar, 16. gr. um opna fundi sveitarstjórnar og 2. mgr. 49. gr. um breytingar á skipan nefnda, ráða og stjórna. Er í því sambandi einnig vísað til 10. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 525/2016, um dagskrá bæjarstjórnarfunda, sem og 39. gr. samþykktarinnar um kosningu ráða, nefnda og stjórna.

Telur ráðuneytið í ítarlegum úrskurði sínum hvorki tilefni til að gera athugasemdir við setu bæjarfulltrúans Guðlaugu Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 11. apríl 2018 né við þær breytingar sem gerðar voru á skipan skipulags- og byggingarráðs og hafnarstjórnar á þeim fundi. Þá séu ekki til staðar forsendur þess að ráðuneytið taki til athugunar meintan kjörgengismissi bæjarfulltrúans Einars Birkis Einarssonar.

Ráðuneytið telur hins vegar tilefni til að gera athugasemdir við tvennt í framkvæmd umrædds fundar bæjarstjórnar 11. apríl. Annars vegar það að tillögur um breytingar á skipan skipulags- og byggingarráðs og hafnarstjórnar hafi ekki verið á útsendri dagskrá fundarins og að þrátt fyrir það hafi ekki verið leitað afbrigða áður en þær voru teknar til umfjöllunar og afgreiðslu á fundinum. Hins vegar það að fundinum hafi í raun verið lokað í tæplega klukkustund á meðan umræður um framangreindar tillögur fóru fram, án þess að skilyrði slíkrar lokunar hafi verið fyrir hendi. Þó báðir þessir ágallar hafi verið ámælisverðir telur ráðuneytið þá þó hvorki leiða til ólögmætis fundarins í heild né ólögmætis þeirra breytinga á skipan skipulags- og byggingarnefndar og hafnarstjórnar sem samþykktar voru mótatkvæðalaust af bæjarstjórn.

Ráðuneytið beinir því til nýrrar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar að hún hugi að framangreindum atriðum í störfum sínum og gæti að því að undirbúningur og framkvæmd funda bæjarstjórnar sé ávallt í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar. Að því sögðu er ekki tilefni til frekari aðgerða í þessu máli og er því þar með lokið af hálfu ráðuneytisins.

Aðgerðarleysi í bæjarstjórn

Í áliti ráðuneytis um lögmæti á setu Guðlaugar Svölu Steinunnar Kristjánsdóttir á fundi 11. apríl eftir að tilkynnt hafði verið á fundi bæjarstjórnar 14. mars sl. um að Guðlaug hafi tilkynnt um ótímabundin forföll sem bæjarfulltrúi. Sat varamaður hennar, Borghildur Sölvey Sturludóttir. Sveitarstjórn þarf að taka formlega afstöðu til skýrrar óskar sveitarstjórnarmanns um lausn frá störfum og jafnframt þarf annað hvort að tiltaka að lausn sé veitt til ákveðins tíma eða til loka kjörtímabils, sé slík lausn veitt. Það var ekki gert og því telur ráðuneytið það bæði skyldu og rétt bæjarfulltrúa að mæta til starfa strax og forsendur forfalla eru ekki til staðar. Var engin athugasemd gerð við afgreiðslu bæjarstjórnar 14. mars.

Þá fjallaði ráðuneytið um kjörgengi Einars Birkis Einarssonar sem sannarlega hafði flutt heimili sitt til Kópavogs þó hann væri áfram skráður með lögheimili í Hafnarfirði. Þjóðskrá úrskurðaði svo að lögheimili hans væri í Kópavogi og missti hann því kjörgengi frá 23. maí sl. Þar sem enginn bæjarfulltrúi gerði formlega athugasemd við kjörgengi hans á bæjarstjórnarfundi tók sveitarstjórn ekki formlega afstöðu til kjörgengis hans eins og hún hefði getað gert. Því sá ráðuneytið ekki ástæðu til að fjalla nánar um kjörgengi Einars.

Í kvörtun til ráðuneytis var gerð athugasemd við það gerð var breyting á skipan skipulags- og byggingarráðs annars vegar og skipan hafnarstjórnar annars vegar en með þeim aðgerðum var meirihlutinn að víkja þeim Pétri Óskarssyni og Borghildar Sölveyju Sturludóttir úr ráðunum.

Enginn kaus á móti

Í áliti ráðuneytisins kemur fram að í fundarboði hefði þurft að geta að gera ætti breytingar í þessum ráðum, annað væri ekki í samræmi við sveitarstjórnarlög og samþykktir Hafnarfjarðarkaupstaðar. Hins vegar sætu ráðsmenn í umboði sveitarstjórnar og gæti því skipt út fólki hvenær sem er sé ekki um það ágreiningur í bæjarstjórn. Þar sem enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni um breytingu í ráðunum telst ekki hafa verið uppi ágreiningur um málið. Gerir ráðið því ekki aðrar athugasemdir en að geta hefði átt breytinganna í fundarboði þó aðeins væru þar nefnd heiti ráðanna.

Sýnir þar enn að hjáseta í afgreiðslu mála telst ekki andstaða eða ágreiningur.

Ólögmæt lokun fundar

Í umfjöllun um fundarhlé sem gert var á miklum deilufundi 11. apríl sl. þar sem blaðamanni Fjarðarfrétta, eina gesti fundarins, var vísað úr salnum á meðan, segir í áliti ráðuneytis að það hafi í raun ekki verið fundarhlé heldur lokun á fundi þar sem málefnaleg umræða hafi haldið áfram. Átelur ráðuneytið bæjarstjórn fyrir enda hafi ekki legið lagalegar heimildir að baki lokunar fundarins.

Úrskurðinn má lesa í held sinni hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2