fbpx
Sunnudagur, janúar 5, 2025
HeimFréttirSkólamálLögð áhersla á forvarnarstarf til að stuðla að bættu geðheilbrigði og gegn...

Lögð áhersla á forvarnarstarf til að stuðla að bættu geðheilbrigði og gegn rafrettum og tóbaksneyslu

Jón Ragnar Jónsson og fulltrúar Hugrúnar geðfræðslufélags heimsækja 8. og 9. bekki grunnskólanna

Hafnarfjarðarbær hefur um nokkurt skeið boðið upp á jafningjafræðslu innan grunnskóla Hafnarfjarðar. Hefur þessi leið mælst vel fyrir hjá nemendum, foreldrum þeirra og starfsmönnum skólanna skv. tilkynningu frá Hafnarfjarðarkaupstað. Umræðan verði oft á tíðum opnari og öðruvísi og þykir því góð viðbót við þá fræðslu og hvatningu sem á sér stað með öðrum hætti.

Þessa dagana eru tvö forvarnarverkefni í gangi hjá Hafnarfjarðarbæ.

  • Hafnfirski tónlistarmaðurinn Jón Ragnar Jónsson heimsækir þessa dagana nemendur í 8. bekkjum allra grunnskólanna og spjallar við þá um heilbrigðan lífsstíl.
  • Hugrún geðfræðslufélag stendur fyrir  jafningjafræðslu fyrir nemendur í 9. bekkja grunnskólanna og snýst um geðfræðslu.
Jón Ragnar Jónsson í góðum gír.

Áhersla á umræðu um rafrettur og skaðsemi þeirra

Í ár leggur Jón Ragnar Jónsson sérstaka áherslu á umræðu um rafrettur og skaðsemi þeirra auk þess sem hann ræðir um tóbaksneyslu barna og ungmenna heilt yfir. Þetta er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.

„Jón Ragnar hefur nú um nokkurra ára skeið tekið þetta verkefni að sér með greinanlegum mælanlegum árangri enda um að ræða lífsglaða og flotta fyrirmynd fyrir unga fólkið okkar sem er í grunninn venjulegur hafnfirskur ungur maður. Hann spjallar við krakkana á jafningjagrundvelli, segir þeim frá sínu lífi, svarar spurningum um fótbolta, veltir fyrir sér hvað sé spennandi við rafretturnar, ræðir um heilbrigðan lífsstíl, talar gegn munntóbaksnotkun og segir frá tónlistarferlinum,“ segir Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.

Samkvæmt rannsóknum Rannsókna og greiningar þá lifa unglingar í 8. bekk almennt mjög heilbrigðu lífi og er talið að jákvæðar og uppbyggilegar forvarnir eins og heimsókn Jóns styrki þá í því að velja áfram heilbrigðan lífstíl.

Fræðsla um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði sem standa til boða

Geðfræðslufélagið Hugrún var stofnað vorið 2016 af nemendum í sálfræði, læknisfræði og hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og hefur félagið m.a. það verðuga markmið að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund.

Til þessa hefur áhersla félagsins legið í fræðslu til framhaldsskólanema auk opinna fræðslukvölda og kynninga til hvorutveggja almennings og foreldra. Í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ tekur geðfræðslufélagið nú næsta skref og færir fræðslu sína til grunnskólanema. Fræðarar á vegum félagsins heimsækja á vorönn 2019 alla nemendur í 9. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar og fræða þá um geðheilbrigði, -sjúkdóma og úrræði sem standa til boða og í raun þá staðreynd að lífið er ekki bara stanslaus gleði heldur snýst það líka um jafnvægi í svo mörgum þáttum.

„Við þurfum að huga betur að geðheilbrigði unga fólksins okkar og því völdum við að fara af stað með jafningjafræðslu um þessi mál í samstarfi við Hugrúnu gagngert til að styrkja ungmennin okkar, opna á umræðuna og stuðla að því að útrýma fordómum,“ segir Geir að lokum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2