fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífEyrún Ósk fékk viðurkenningu fyrir ljóð sitt „Mamma má ég segja þér"

Eyrún Ósk fékk viðurkenningu fyrir ljóð sitt „Mamma má ég segja þér”

Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur í 17. sinn við hátíðlega athöfn í Salnum á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar. Alls bárust 302 ljóð í keppnina.

Handhafi Ljóðstafsins árið 2019 er Brynjólfur Þorsteinsson sem fæddur er 1990.
Í öðru sæti var Margrét Lóa Jónsdóttir fyrir ljóðið Allt sem lifir deyr og þriðja sætið hlaut Elías Knörr fyrir ljóðið Sunnudögum fækkar með sérhverri messu!

Sérstaka viðurkenningu hlutu auk þess ljóðskáldin Dagur Hjartarson, Arndís Þórarinsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Hjörtur Marteinsson, Björk Þorgrímsdóttir og hafnfirska ljóðskáldið Eyrún Ósk Jónsdóttir fyrir ljóðið Mamma má ég segja þér?

Mamma má ég segja þér?
Sérðu, það er Gullregn í fossinum
og trén eru að syngja,
heyrir þú, heyrir þú, heyrir þú trén syngja?

Mamma má ég segja þér?
Heimurinn býr til svo fallega hluti,
sjáðu perlur, sjáðu strá
sjáðu fjöður, sjáðu lauf.
Mamma þú ert falleg með falleg augu
demantar og geislasteinar
falleg, falleg augu,
mamma horfðu djúpt í augun mín
djúpt, djúpt í augun mín.

Mamma má ég segja þér?
Þegar ég verð stór
ætla ég að kaupa mörg blóm handa þér
og bjóða þér í ferðalag
og þegar ég verð stærri en þú
skal ég halda á þér
þegar þú verður þreytt í fótunum.

Mamma má ég segja þér?
Stjörnurnar eru að baða sig í sjónum
og ég á líka stjörnur sem ég geymi í fjársjóðskistu.
Mamma viltu sjá stjörnurnar mínar?
Allar dýrmætu stjörnurnar mínar,
fjársjóðs stjörnurnar mínar.

Mamma má ég segja þér?
Það eru lítil hús í hjartanu mínu
full af fólki sem ég elska
elska, elska, elska
Mamma má ég segja þér?
Mamma, veistu að ég elska þig?
Mamma, ég elska þig í hjartanu mínu
í hjarta húsinu mínu.
Mamma má ég segja,
má ég segja
að ég elska þig?

Verðlaunahafar Ljóðstafsins og ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. – Ljósmynd: Anton Brink

Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður Kópavogs. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000 og frá árinu 2002 hefur Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar afhent Ljóðstaf Jóns úr Vör á fæðingardegi skáldsins.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2