Þrjár hafnfirskar menningarstofnanir; Pollapönk, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Kór Öldutúnsskóla leiða saman hesta sína á stórtónleikum í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði laugardaginn 16. febrúar kl. 14. Sambræðingur þessara ólíku hópa verður án efa gríðarlega spennandi en á efnisskránni verður úrval laga Pollapönkaranna í splúnkunýjum útsetningum.
Í tilefni tónleikanna gefa Pollapönkarar út nýtt lag, Garðar rannsakar, sem sett verður í spilun á útvarpsstöðvum. Í laginu segir frá Garðari, sem rannsakar hver stal stuðinu. Lagið verður svo frumflutt á tónleikunum.
Pollapönk þarf varla að kynna. Þeir eru Hafnfirðingar í húð og hár og voru brautryðjendur í að semja og leika íslenska rokktónlist sem var sérsniðin fyrir börn. Þeirra frægasta lag er án efa Enga fordóma sem þeir fluttu fyrir hönd Íslands í Eurovision 2014.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar var stofnuð í janúar 1950 og er því komin fast að sjötugu. Sveitina skipa um 40 hljóðfæraleikarar. Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.
Á þeim rúmlega fimmtíu árum sem Kór Öldutúnsskóla hefur starfað, hafa þúsundir hafnfirskra barna tekið þátt í kórstarfinu og notið leiðsagnar í söng og tónlistarflutningi. Kórinn skipa nú um 100 börn. Stjórnandi Kórs Öldutúnsskóla er Brynhildur Auðbjargardóttir.
Miðasala er á midi.is.