fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkLeynd yfir tillögum að nýju skipulagi miðbæjarins

Leynd yfir tillögum að nýju skipulagi miðbæjarins

Friðþjófur Helgi Karlsson bæjarfulltrúi skrifa

Núgildandi deiliskipulag miðbæjarins er frá 2001 og frá þeim tíma hafa átt sér stað miklar samfélagslegar breytingar. Nú hefur um nokkra hríð staðið yfir vinna við að endurskoða það deili­skipulag. Verkefnið er yfir­grips­mikið og vandmeðfarið því afar mikilvægt er að varðveita þá bæjarmynd sem fyrir er á svæðinu og ekki síst núverandi ásýnd byggðarinnar og samspil hennar við hafnar­svæðið. En vinnan hefur enn sem komið er eingöngu verið á borði em­­bættismanna og pólitíkusa.

Tillögur sem ekki hafa komið fyrir almenningssjónir

Í fyrra voru unnar þrjár hugmyndir um mögulega þróun miðbæjarins af hendi þriggja arkitektastofa. Ákvörðun um að leita til þessara þriggja hönnunar­teyma var tekin í upphafi árs 2018 og tillögurnar voru kynntar fyrir skipulags- og byggingarráði þann 6. mars 2018. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa sem lagt var fyrir fund skipulags- og bygg­ingarráðs á þessum tíma og samþykkt var að vinna eftir er talað um nokkra þætti sem mikilvægir eru til að fylgja málinu eftir. Þar er talað um að eftir kynningu í ráðum verði haldnir almennir kynn­ingarfundir fyrir bæjarbúa um hugmyndavinnuna og hún verði kynnt í bæjarblöðunum. En nú rúmu ári síðar bólar ekkert á því að þessar hugmyndir komi fyrir almenningssjónir.

Af hverju eru tillögurnar leyndarmál?

Mér er það hulin ráðgáta hvaða ástæður eru fyrir því að þessar tillögur hafa enn ekki komið fyrir almenn­ingssjónir. Eru virkilega einhver rök sem mæla gegn því? Þola tillögurnar ekki dagsins ljós? Það er mikilvægt að öll vinna sem tengist skipulagsmálum sé unnin með þeim hætti að allt sé uppi á borðum og að almenningi gefist kost­ur á að koma að málum frá fyrstu stig­um þess. Að mínu mati eru þessar keyptu tillögur opinber gögn sem ber að hafa aðgengileg öllum bæjarbúum frá þeirri stundu sem þær eru lagðar fram.

Vonandi er ferlið loksins að opnast

Nú hefur loksins verið skipaður starfs­hópur um skipulag miðbæjarins sem tók formlega til starfa nýverið. Ég vona að nú taki við opið ferli með aðkomu bæjarbúa, því svona mál verða ekki unnin án aðkomu þeirra. Og að það verði fyrsta verk nýs starfshóps að leyfa þessum tillögum sem hafa nú þegar verið unnar fyrir bæjarfélagið að koma fyrir almenningssjónir. Því það er réttur bæjarbúa.

Friðþjófur Helgi Karlsson bæjarfulltrúi.

Greinin birtist í 15. tbl. Fjarðarfrétta, 18. apríl 2019

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2