Skessan, nýtt knattspyrnuhús FH, er farin að láta kræla á sér. Eftir umdeilda afgreiðslu bæjaryfirvalda þar sem enginn vildi kannast við að heimila greiðslur, virðist friður vera yfir sjálfri byggingu knatthússins sem er nú að rísa.
Fyrstu stálgrindarsperrurnar eru komnar á sinn stað svo nú sést hversu hátt og breitt húsið verður. Enn er verið að steypa sökkla og unnið er hörðum höndum svo húsið megi komast í notkun í lok ágúst skv. áætlun að sögn Viðars Halldórssonar formanns FH.

Segir hann uppsteypu eigi að ljúka um miðjan júní en hún tefji ekki vinnu við stálvirkið. Reiknar hann með að dúkurinn verði lagður á um miðjan júlí.

Skessan er gríðar stór bygging, 22,8 m há og 115 m löng og alls um 8.400 m² að flatarmáli. Af því er um 95 m² anddyri með 4 salernum og þjónusturýmum. Húsið steypt upp í 2,5 m hæð og þá tekur við stálgrindin sem klædd er með PVC húðuðum og acryl-lökkuðum pólýesterdúk. Anddyrið er timburhús, klætt með svörtum plötum.
Skv. byggingalýsingu er húsið ætlað fyrir allt að 840 manns við íþróttaiðkun. Áhorfendabekkir verða á langhliðum en þó ekki mjög stórir enda ekki nema um 2,7 m frá velli að útkanti byggingarinnar. Ákvæði eru um að ekki verður leyfilegt að vera með aðra starfsemi í húsinu eins og skemmtanir og sýningar. Húsið verður ókynt en vélræn loftræsting verður í húsinu.
