fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífThelma Byrd gefur út kántrý lag

Thelma Byrd gefur út kántrý lag

Annað lagið sem Thelma gefur út og verður á væntanlegri breiðskífu

Hjónin Thelma Hafþórsdóttir Byrd og Magnús Örn Magnússon undirbúa útgáfu á breiðskífu
Thelma Hafþórsdóttir Byrd er 34 ára Hafnfirðingur sem var svo kjörkuð að kalla sig Gaflara strax eftir að hún flutti til Hafnarfjarðar fyrir 5 árum síðan. Hún gerði það í gríni en var fljótt leiðrétt. Thelma er uppalin á Seltjarnar­nesi og ætlaði ekki að stoppa lengi í Hafnarfirði þegar hún flutti ólétt úr Laugardalnum með manni sínum Magnúsi Þór, í vesturbæ Hafnarfjarðar. Nú vilja þau hvergi annars staðar búa og þegar annað barnið fæddist fyrr á þessu ári, fluttu þau í suðurbæinn.

Magnús Örn Magnússon með börnum þeirra Thelmu.

Magnús Örn Magnússon maður hennar er tónlistarmaður en Thelma starfar sem deildarstjóri iðjuþjálfunar í Mörk, hjúkrunarheimili, en er núna í fæðingarorlofi.

Annað lagið á breiðskífu

26. júní sl. kom út lagið Baby I love you so, þar sem Thelma syngur alvöru kántrý lag. Er það annað lagið sem þau gefa út og á að koma á væntanlega breiðskífu þeirra hjóna. „.Fyrst var útlit fyrir að við værum með kántrý plötu í höndunum en síðan hefur stefnan örlítið breyst og nú veit ég ekki ná­­kvæmlega hvar hún endar. Við gáfum síðan út Baby I love you so miðviku­daginn 26. júní, en von er á fleiri lögum von bráðar,“ segir Thelma sem hefur verið að syngja frá því að hún man eftir sér.

Iðjuþjálfi og söngvari

„Ég byrjaði í FÍH eftir að ég útskrifaðist úr Verzlunarskólanum og þegar ég tók þátt í Bandinu hans Bubba 2008 þá svona fór boltinn almennilega að rúlla. Í kjölfarið stofnaði ég hljóm­sveitina Trútón ásamt Guðmanni Sveins­syni og gekk síðar til liðs við hljómsveitina Silfur. Síðustu ár hef ég verið mest að starfa sjálfstætt og hef beint sjónum mínum að minni eigin lagaútgáfu,“ segir Thelma.

Thelma með yngra barn þeirra hjóna.

„Ég er iðjuþjálfi að mennt og með­fram fjölskyldunni þá er nóg að gera, svo maður verður að forgangsraða. Það sem gefur mér mest, það er að búa til tónlist, bæði sjálf en líka með eigin­manninum. Það er síðan bónus að fá að deila henni með heiminum. Svo ég hef einbeitt mér að því að semja og deila.“

Þau hjónin gáfu út fyrstu smáskífuna af væntanlegri breiðskífu sumarið 2017, það var lagið Humming my song sem má finna á Spotify eins og nýja lagið. Núna kom svo annað lagið og sér til halds og trausts í laginu eru Þórir Úlfarsson sem leikur á Wurlitzer og Hammond orgel, Rögnvaldur Borg­þórsson á gítar og Magnús Örn sem leikur á ýmis hljóðfæri auk þess að upptökustýra og hljóðblanda.

Hlusta má á lagið hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2