Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns dökkleitrar fólksbifreiðar sem ók á 8 ára dreng á gangbraut á Hjallabraut skömmu fyrir kl. 19 í gær, þriðjudaginn 6. ágúst, þannig að líkamstjón hlaust af.
Ökumaðurinn ók rakleiðis af vettvangi.
Tilkynning um slysið barst kl. 18.49, en umferðarljós eru við gangbrautina, sem er á mótum íbúða aldraðra við Hjallabraut 33 og verslunar Nettó að Miðvangi 41, en bifreiðinni var ekið austur Hjallabraut í áttina að Reykjavíkurvegi. Drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.
Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.
Lögreglan biður ökumann dökkleitu fólksbifreiðarinnar um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið helgig@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.