Fjölmargir vísindamenn hafa oftar en einu sinni tekið til máls undanfarin ár og varað hástöfum við loftslagsbreytingunum og segja sumir þeirra að við (mannkynið) séum nú stödd í miðjum og óafturkræfum hamfarabreytingum sem munu eyða nær öllu lífi á jörðinni. Segja þeir að ef við gerum ekki eitthvað innan tíu ára, þá sé voðinn vís.
Verri verða hamfaraspárnar varla og verra er að þetta skuli koma frá fræðimönnum sem vita hvað mest um þetta flókna samspil okkar við náttúruna. Hins vegar ber að geta þess að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem allt líf eyðist á jörðinni en núna er þetta að gerast með margföldum hraða miðað við fyrri fimm endalok lífs á jörðinni eða svo segja fræðin.
Hér er ætlunin að fjalla um nokkur þessara atriða sem vísindamenn eru að benda á og hvernig þessar breytingar geta valdið svona miklum hamförum ef ekkert er gert eins og þeir lýsa þessu.
Nú er bent á að eftir 2014 eru nær allar hamfaraveðurbreytingar komnar á ofurhraða sem mun aldrei hafa gerst áður. Mest er varað við auknum hraða við hækkun magns koltvísýrings eða CO2 í andrúmslofti sem veldur svo hækkun hitastigs um alla jörð þó misskipt sé. Hækkun sjávarborðs, bráðnun íss á Grænlandi og á pólunum, líklegur metanblómi úr túndrunni og lífdauði sem eykst nú óhugnanlega hratt eru helstu einkennin. Einnig er talað súrnun sjávar, ört minnkandi vatnsbirgðir um allan heim, aukna þurrka og að við séum að missa búsvæðin okkar og allt þetta komið á ofurhraða.
Súrnun sjávar
Frá upphafi iðnbyltingarinnar 1750 hefur hafið súrnað um 30% vegna áhrifa CO2 sem leysist í hafinu. Aukningin er greinileg og hraðari í seinni tíð. Komið hefur fram kenning sem er byggð á fyrri atburðum er hafið súrnaði mikið á mjög skömmum tíma sem segir að mikil súrnun gæti orðið snögglega á mjög stóru hafsvæði. Talað er um að það sé eins og að taka í „gikkinn“ til að lýsa þessari breytingu. Eftir þessa snöggsúrnun mundi skelmyndun sjávarlífvera ekki eiga sér stað sem áður og lífsmynstur átu í norðurhöfum og víðar breytast. Margir lífverur í sjó nota líka kalksteina í höfðinu sem jafnvægisnema og eru dæmi um að sjávarlífverur missi lyktarskynið við súrnun sjávar. Ef sjórinn súrnar að ráði, þá verður hann ekki lengur sú matarkista sem við erum vön.
Lífdauðinn
Þegar stórt hlutfall lífvera eyðist á tiltölulega stuttu tímabili er talað um aldauða. Í gegnum 4,6 milljarða ára sögu jarðarinnar eru þekktir 5 aldauðar sem þurrkuðu út meirihluta allra lífvera á jörðinni. Þeir voru mismunandi að stærð og höfðu mismunandi orsakir en þeir eiga það allir sameiginlegt að þeir gjöreyðilögðu líffræðilega þeirri fjölbreytni sem fannst á jörðinni á þeim tíma sem þeir gerðust.
Seinasti og þekktasti aldauðinn gerðist í lok Krítartímabilsins fyrir um 65 milljónum ára.
Þriðji og hrikalegasti aldauði jarðsögunnar gerðist í lok Permtímabilsins fyrir um 250 milljón árum en þá eyddist um 96% allra tegunda jarðar. Þessi atburður er stundum kallaður „Mikli dauði.“
Ýmsar nýjar rannsóknir og mælingar sýna að sjötti aldauðinn sé hafinn og að hann sé miklu alvarlegri og hraðari en áður var talið. Það er eðlilegt að tegundir deyji út enda er það hluti þróunarinnar en sú hraða útrýming sem á sér stað í dag er fordæmalaus.
Vísindamenn telja að sjötti aldauðinn muni hafa miklu alvarlegri afleiðingar og það lítur út fyrir að hann eyði miklu stærri hluta af líffræðilegri fjölbreytni jarðarinnar en fyrri aldauðar. Talið er að um 150-200 tegundir lífvera deyi út daglega.
Samkvæmt nýjum rannsóknum deyja lífverur í dag út um 10 þúsund sinnum hraðar en þær gera á stöðugum tímum í jarðsögunni og áætlað er að um helmingur villtra dýra hafi dáið út síðastliðin 40 ár (Ehrlich og Ehrlich, 2015).
Bráðnun Norðurpólsins
Fyrir nokkrum árum spáði virtur vísindamaður að Norðurpóllinn myndi bráðna allur í síðasta lagi 2019. Nú er alltaf verið að stríða vísindamanninum á þessari hrakspá – en að póllinn skuli ekki vera bráðnaður er skammgóð gleðifregn. Hann áttaði sig ekki á því að reikna með verndandi ,,sólhlífaráhrifum“ sótmengunar frá iðnaði og stórborgum sem eru svo mikil að ef allar borgir heimsins myndu hreinsa alla sótmengun, þá myndi sólin skína glatt á bera jörðina og svart malbikið í stórborgunum og hita andrúmsloftið um 0,5°C eða meir og það strax um alla jörð. Bara það að minnka hluta af þessari mengun frá iðnaði og borgum myndi valda hlýnandi veðri sem því nemur.
Ísinn á Norðurpólnum er fljótandi í Íshafinu og nær víða landi á veturna þegar hann stækkar. Hitaálagið þarna er því ekki bara frá lofti heldur ekki síður frá hratt hlýnandi sjónum undir öllum ísnum. Bráðnun þessa íss mun þó ekki hækka yfirborð sjávar enda er 9/10 hlutar íssins þegar í sjónum.
Miðað við hraða bráðnunar íssins á Norðurpólnum, hitastreymi inn í Íshafið frá Atlantshafi og Kyrrahafinu að ekki sé minnst á nýlegar hitabylgjur umhverfis pólinn í sumar og rigningarnar þar, þá virðist ekki vera langt í íslausan Norðurpól að sumri. Þetta þýðir svo aftur stóraukið hitaálag á þetta svæði er sólin skín á dökkan sjóinn sem drekkur í sig hitann í stað þess að endurkasta honum út í geiminn aftur.
Til að bæta gráu ofan á svart þá hlýnar tvöfalt hraðar á Norðurpólnum en alls staðar annars staðar í heiminum eða um 2°C á 30 árum. Þetta þykir sérstakt því Suðurpólinn hagar sé ekki svona. Einnig ber að geta þess að aukinn raki í loftinu þarna vegna aukins hita, veldur aftur aukinni hlýnun sem bætist sífellt við hitaálagið á svæðinu sem átti að virka sem kæling fyrir loftslagið eins og við þekkjum það í dag.
Lýsandi dæmi um ástandið á pólnum er gamall þéttur ís sem var lengst af um 4 metrar á þykkt er nú orðinn um 20 cm þykkur og er laus í sér eins og krap.
Mælingar á bráðnun íss hafa sýnt mun meiri og hraðari bráðnun en verstu spár vísindamanna gerðu áður ráð fyrir. Ef ísinn hverfur á Norðurpólnum mun hlýna fljótlega um allan heim því kælingin er farin, straumakerfin munu breytast og margt fleira.
Það vantar ekki dramatíkina í þessum viðvörunum vísindamannanna en forseti Finnlands bætti þó um betur þegar hann sagði, að ef við missum Norðurpólinn, þá missum við jörðina!
Innbyggt hitaálag
Við rannsóknir á hlýnun á túndrunni kom í ljós að sumarhitinn var sums staðar enn í jarðveginum áður en fraus yfir að vetri.
Koltvísýringurinn sem við losum í dag á eftir að vera í andrúmsloftinu í allt að þúsund ár og á eftir að hita jörðina enn meir, allan þann tíma. Þó svo að við myndum stöðva strax alla losun CO2 þá er ekki nokkur leið að stöðva þá ferla sem nú eru farnir af stað, hitinn er enn að vinna og mun vera svo til langrar framtíðar. Það þyrfti að taka óhemjumagn CO2 úr loftinu mjög fljótt til að stöðva allt það sem er farið af stað á ofurhraða í náttúrunni.
Maður hefði haldið að hitaálag á norðurslóðum myndi minnka á veturna en svo er víst ekki því það rignir stundum á Norðurpólnum og það um áramót og mælst hefur 11°C hiti þarna í september.
Til að auka enn á áhrifin þá losnar hluti af CO2 úr hafinu vegna minnkandi leysni lofttegunda í vökva sem hitnar, eins og gerist við að hita gosflösku. Þá eykst hluti CO2 í andrúmsloftinu og hlýnunin samhliða.
Sjórinn hefur hlýnað mun meir en jörðin og hefur því tekið til sín mikinn hluta hitaálagsins. Það er ótrúlegt en satt að hitaorkan sem dynur á jörðinni daglega er á við 400 þúsund Hirosima kjarnorkusprengjur, alla daga! Þessi hiti verður eftir í jörðinni og sérstaklega hafinu og bætir því daglega við hlýnunina.
Hækkun sjávarborðs
Sjávarborðshækkun vegna bráðnunar alls íss á Grænlandsjökli getur mest orðið rúmir 7 metrar og hefur ætíð verið talað um að það tæki margar aldir ef þetta gæti þá nokkuð bráðnað en bara sumarbráðnunin úr jöklinum hækkaði yfirborð sjávar um allan heim um rúmlega einn millimetra. Í fyrra hækkaði sjávarborð heimsins um 5,3 millimetra. Þetta bætist þá við þá hækkun, ásamt almennri aukningu á bráðnun milli ára. Gætum við þá farið að nálgast 7 millimetra hækkun sjávarborðs þetta árið en eins og áður sagði er hækkun sjávarborðs ört vaxandi. Paul Beckwith eðlisfræðingur, spáði fyrir 5 árum að það myndi hækka um 7 metra metra á þessari öld og endurtók þessa spá fyrir stuttu, sagði einfaldlega að útreikningarnir sýndu ekki annað, að teknu tilliti til hraðabreytinganna eftir 2014. Það verður svo að koma í ljós hvað verður en margir spá minni hækkun eða fáeinum metrum.
Suðurskautsjökulinn allur gæti hækkað sjávarborðið um 57 metra. Aðrir jöklar sem gætu hækkað sjávarborðið geta gefið alls um 1 metra hækkun. Alls eru þetta um 65 metrar. Miðað við magn CO2 í andrúmslofti ætti sjávarborðið að vera mörgum metrum hærra en nú er – en talið er víst að það eigi eftir að koma fram eins og línuritið sýnir.
Sjálfsagt flytur fólk inn í land er sjórinn sækir á en árósar og lífríkið þar yrði fyrir skakkaföllum. Sumir hafa bent á að slíkir innviðaflutningar geti þá orðið einn helsti drifkrafturinn í efnahagskerfinu í framtíðinni, – hvernig sem það liti út þá.
Um helmingur hækkunar á sjávarborði er vegna hitaþenslu sjávarins. Þannig að þegar ísinn bráðnar, hækkar sjávarborðið og þegar hann hlýnar svo alltaf meir og meir, þá hækkar það enn meir. Mikið er um allskyns svona margföldunaráhrif í veðrabreytingunum, til hins verra. Hafa margir vísindamennirnir sagt að það hafi komið þeim á óvart við að rannsaka þessar miklu og hröðu breytingar hversu viðkvæmt loftslagið sé.
Heimskautaröstin gefur sig
Hluti af heimskautavindakerfinu er heimskautaröstin eða ,,Jetstream“ sem hefur blásið um háloftin á norðurhveli og getur verið yfir 300 km/klst í 10 km hæð. Hafa þotur flogið uppí þessa röst til að flýta för en vegna minnkandi hitamunar milli norður/suður loftlaga hefur dregið úr stöðugleika þessara vindakerfa. Stundum myndast þarna veðrarastir sem allt í einu bera heimskautaloft og snjóstorma alla leið til Sahara, Rómar eða til miðríkja Bandaríkjanna þar sem bændur misstu mikið af hveitibirgðunum er fellibylur dundi yfir og bættist við allan snjóinn og bleytuna sem fyrir var. Stór hluti hveitiuppskerunnar var í geymslum vegna tollastríðs við Kína og urðu margir bændur þarna mjög illa úti.
Einnig gerist annað þegar heimskautavindar gefur sig, hlýtt loft berst inn á heimskautasvæðið sjálft og veldur þar hitabylgjum en þarna má eiginlega alls ekki hlýna því undir túndrunni eru víða jarðvegsleifar mestu hitabeltisskóga jarðar til milljóna ára og gæti losnað gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda ef túndran bráðnaði að ráði, hvort sem er á landi eða á grunnsævi.
Gróðurhúsalofttegundir
Það eru nokkrar lofttegundir sem gleypa í sig hita sólarinnar og hita þannig jörðina eins og til dæmis koltvísýringur CO2, metan CH4, vatnsgufa H2O og köfnunarefnisoxíð N2O. Athugið að þegar loft hlýnar, þá ber það meiri raka eins og gufan gerir. Þannig eykur hlýnunin á jörðinni á vatnsgufu í loftinu sem aftur veldur aukinni hlýnun!
Koltvísýringur eða CO2 hefur aldrei verið eins mikill í andrúmslofti eða 415 ppm (hlutar/milljón) og eykst sem aldrei fyrr.
Milli síðustu fjögurra ísalda var það alltaf bara 180 ppm (hluti af milljón) á veturna en 270 ppm á sumrin og sveiflaðist þar á milli í milljónir ára þar til nú að styrkurinn rýkur upp. Hitaáhrifin vegna CO2 vara öldum saman. Aldrei hefur verið annað eins magn í andrúmsloftinu og er þetta drifkrafturinn í hamfaraveðrakerfinu sem fer nú að taka við stjórn heimsmálanna í æ meira mæli. Við áttum samt að vera á leið inn í ísöld eftir um 26 þúsund ár samkvæmt eðlilegri sveiflu náttúrunnar en það mun ekki gerast. Við fáum heldur ekki ísöld hér þó hægi á Golfstraumnum eins og íslenskur vísindamaður lét hafa eftir sér í fjölmiðlum fyrir stuttu. Það er nánast útilokað að það fari að kólna undan þessu hitaálagi sem nú er.
Magn metangass í loftinu hefur stóraukist en það er sérlega áhugavert vegna stórs hlutverks þess í fyrri loftslagsbreytingum í hin skiptin sem líf á jörðinni eyddist. Aukning nú er talin vegna hlýnunar um allan heim því það rotnar allt hraðar í meiri hita. Einnig hefur mælst losun frá túndrunni sem er mikið áhyggjuefni.
Þetta er talin mesta ógnunin við tilveru okkar á jörðinni, ef það yrði mikil og snögg losun metans á túndrusvæðum á norðurhjara (Austur Síberíuhafið, grunnsævið). Metan á til að losna í miklu magni í einu, oft staðbundið. Það er gríðarlegt magn metans þarna en nær öruggt er að það losni en hvenær?
Þess vegna er að nú um stundir horfa margir vísindamenn kvíðnir til þessa grunnsævis í austur Síberíuhafinu. Þarna undir sjónum er gífurlegt magn metangass (CH4) sem er allt að 80-200 sinnum öflugra en CO2 og myndi þetta hafa áhrif á við 1°C hitaaukningu um allan heim og það innan árs, ef bara um 10% metangassins myndi losna út í andrúmsloftið. Sú hlýnun myndi auðvitað bætast við það sem fyrir væri.
Natlie Shakhova er ung vísindakona frá Rússlandi sem hefur gagnrýnt vestræna vísindamenn fyrir að vanmeta áhrif metans á lofslagið. IPCC eða umhverfisráð Sameinuðu Þjóðanna tók ekki tillit til áhrifa metans í skýrslum sínum, því þeir gátu ekki komið sér saman um magn áhrifanna! Natlie hefur rannsakað túndruna þarna í áratugi ásamt sínu fólki og talar um að þarna sé ein mesta umhverfisváin okkar í dag. Líklega verður það frekar fyrr en seinna vegna hitaálagsins sem er nú á og við Norður-Íshafið. Hitabylgjur í Alaska í sumar hafa ekki bætt ástandið þarna að ekki sé minnst á skógareldana í túndrunni í Rússlandi, Grænlandi og Alaska. Telja má að þetta geti gerst þegar Norðurpólinn verður íslaus og sólin hitar upp Íshafið og kæligetan er farin, ef ekki fyrr.
Ef jurtaleifar rotna í jörðu myndast CO2 en metangas CH4 ef þær rotna undir vatni (án súrefnis). Norður-Íshafið er um 14 milljónir ferkílómetrar og er mikið grunnsævi þar eins og í Austur-Síberíu hafinu. Talið er að þar séu um 50 milljarðar tonna af metani sem gæti losnað. Við værum þá komin vel yfir 2°C hlýnun eða meir innan árs frá þessari metanlosun. Þessi snögga hlýnun myndi svo hraða öðrum hlýnunarferlum og allt leggst á eitt, á versta veg.
Matvælaskortur
Meir en 50% orku mannkyns er úr hrísgrjónum, maísbaunum og hveiti. Uppskerubrestir vegna hlýnunar, skorts á vatni og flóða eru nú mun tíðari en áður og það á sama tíma og mannfjölgunin er örari en nokkurn tíma.
Verstu áhrifin verða sjálfsagt vegna þurrka og flóða á viðkvæmustu hlýnunarsvæðunum eða mörgum stærstu ræktunarsvæðum heimsins.
Búist er við mjög miklum matarskorti og er nú þegar búið að spá ört hækkandi verði á matvælum með sívaxandi fólksfjölda, minnkandi akurlendi og síminnkandi framboði. Það eru staðreynd að þegar matarverð hækkar í heiminum, þá koma styrjaldir og átök.
Flótti smábænda í Indlandi og víðar til borganna sem margar hafa ekki nægt vatn er ekki sjálfbær. Rúmlega 20 stórborgir í Indlandi eru nær vatnslausar, vatnsskortur í Kaliforníu kemur í veg fyrir frekari ræktun þar og hafa fréttir borist reglulega um að stórborgir í Suður Afríku séu að verða vatnslausar. Í Harare, höfuðborg Zimbabwe hætti nýlega allt í einu að koma vatn úr krönunum. Í sunnanverði Evrópu er grunnvatnið víða búið. Alls staðar vantar vatn. Þetta þýðir að við missum ræktarlandið á þessum svæðum og búsetuna þar með.
Í Afríku er búist við fjórföldun fólksfjöldans þar á þessari öld. Hvorki er til nægt vatn eða matur fyrir allt þetta fólk. Um aldamótin 2100 er búist við að mannfjöldinn í Nígeríu verði næstum eins margir og búa þá í Kína.
Til að við áttum okkur betur á því hversu fljótt þetta getur gerst, væri hollt að minnast þess hversu algerlega háð við erum næsta stigi fyrir neðan okkur í fæðukeðjunni. Ef okkur tekst ekki að rækta, þá verður einfaldlega enginn matur að maður tali ekki um vatnsþurrð.
Almennt er dælt upp um 3,5 sinnum meir af grunnvatni en endurnýjast og svo glatast jarðvegur í heiminum tíu til fjörutíu sinnum hraðar en hann myndast og á sama tíma og við erum að missa vatnið og ræktarlandið, þá fer okkur ört fjölgandi. Er áætlað að við verðum 9,7 milljarðar um miðja öldina eða eftir 30 ár og 10,9 milljarðar 2010. Þetta lítur mjög illa út svo ekki sé meira sagt.
Ætla mætti þá að ef farið er norðar á hnöttinn væru betri ræktunarskilyrði, en þar hamla rigningar og flóð ræktun. Dæmi er Bretland sem flytur inn um helming matvæla. Stöðugar vor- og sumarrigningar þar hafa eyðilagt uppskeru fyrir mörgum bændum og hafa sumir þeirra orðið að hætta eftir 2-4 ára uppskerubrest. Þetta er að versna mjög í Bretlandi en svona er þetta meira og minna alls staðar, mismunandi en svæðisbundin vandamál við að verja vistkerfi mannsins.
Flóttamannavandinn
Um 73 milljónir flóttamanna eru í heiminum nú og aðeins ein milljón þeirra kom til Evrópu frá Sýrlandi fyrir nokkrum árum og olli þar gífurlegum usla og breytingum á stjórnmálum. Talið er að tugir til hundruð milljóna manna muni enda sem umhverfisflóttamenn á næstu áratugum og þetta verði upphaf af gífurlegum fólksflutningum til norðurs og suðurs.
Lilja Alfreðsdóttir sagði á NATO ráðstefnu 2017, að auknar líkur væru á miklum deilum milli ríkja í framtíðinni þegar þau reyna að tryggja íbúum sínum vatn og mat. Talaði hún hreint út um aukna spennu og stríð vegna veðurhamfara. Þá má búast við miklum hörmungum. Félagsfræðingar hafa bent á að það séu ekki glæpagengin sem verði versta vandamálið í þeirri upplausn sem fylgir veðurhamförum, því það eru ríkisstjórnirnar sem reka þjóðir í stríð við nágranna sína sem velda mesta mannfallinu samkvæmt sögunni.
,,Þetta lítur illa út.“
(Natlie Shakova, rússneskur vísindamaður um metanlosunina í túndrunni).
Hitabreytingar á jörðinni á síðustu 11.000 árum sveifluðust aðeins um 0,5°C, aldrei meir. Nú erum við í allt öðrum heimi þar sem nær allar hamfaraveðurbreytingar eru komnar á ofurhraða eins og áður hefur verið minnst á. Þetta hefur aldrei gerst svona hratt. Síðast þegar svona miklar breytingar urðu, þá tóku þær um 20.000 ár og lífheimurinn hafði tíma til að aðlagast en núna er þetta að gerast á vel innan við 200 árum sem er ofurhraði á jarðartíma.
Sumir spá því að hlýnunin verði komin í 2°C um 2050 og í 4°C aldamótin 2100 og ört hækkandi þar á eftir. En þá skulum við hafa í huga að þetta gæti orðið fyrr! Þess vegna verður eitthvað að fara gerast því það er beinlínis fullyrt að við 4°C hækkun hitastigs gæti ekkert líf þrifist á jörðinni nema kannski fáein þúsund flóttamanna í tækniskjóli þar sem pólarnir voru áður. Hlýnunin héldi svo áfram að aukast eftir það.
Bráðnun íss og samsvarandi hækkun sjávar er ekki það versta, en þetta mun þá valda gífurlegum fólksflutningum og ef súrnunin hafsins verður eins og talað er um þá er matarkista 2 milljarða manna í hættu bara þar. Veðrakerfin munu einnig vera að breytast, jafnvel snögglega og þar sem við höfum ekki hugað að ræktun nýrra tegunda í nýju lofslagi munum við ekki ná að þróa upp nýtt vistkerfi fyrir okkur.
Lífdauðinn í náttúrunni er staðreynd og veit enginn hvernig það mun fara með mannkynið.
Maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé ekkert í mannlegum mætti sem getur komið í veg fyrir þessar hamfarabreytingar, er ekkert hægt að gera til að stöðva þessar óafturkræfu hamfaraveðurbreytingar í náttúrunni svo við missum ekki vistkerfin okkar?
Það gengur þó illa að fá þjóðir heims til að minnka notkun kolefnis sem orkugjafa (olía, kol, gas) og því miður eru ekki aðrir orkugjafar til sem geta leyst kolefnið af hólmi, í því magni sem til þarf. Notkun kolefnis hefur líka aukist þrátt fyrir loforð ríkjanna um annað. Í Þýskalandi er til dæmis verið að opna nýjar kolanámur og ryðja burt hluta af fornum skógi til þess.
Amazon skógurinn brennur nú sem aldrei fyrr sem og aðrir skógar í Asíu og nú orðið í Alaska, Grænlandi og einnig í túndrunni í Rússlandi.
Hvað er til ráða?
Helsta ráðið er víst að banna og/eða takmarka mjög verulega barneignir. Jörðin ber ekki nema um þriðjung mannkyns eða rúmlega 2 milljarða. Hvort sem það er hægt eða ekki er annað mál.
Gegndarlaus skógrækt er líklega nærtækasta leiðin til að fjarlægja kolefnið í andrúmsloftinu svo og þangrækt í hafinu.
Annað ráð er svo að banna kjötát. Fyrir eina máltíð af kjöti, mætti hafa 10 máltíðir með grænmeti eða korni fyrir utan margfalda vantsþörf umfram kornrækt.
Einnig yrði að takmarka verulega eða koma í veg fyrir olíunotkun. Bent hefur verið á ýmsa þætti eins og að minnka bílvélarnar og byggja ný kjarnorkuver í miklum mæli.
Mörg okkar vilja leggja eitthvað af mörkum en það mun engin áhrif hafa að flokka sorpið heima ef ríkisstjórnir taka ekki þátt í stórtækum aðgerðum og það strax. Talið er að það þurfi meir en 2 billjónir dollara á ári í fyrstu aðgerðir en hergagnaframleiðslan er um 1.8 billjónir dollara á ári.
Mikið hefur verið rætt um tæknilausnir eins og að dæla kolefninu bara úr andrúmsloftinu en bæði er aðferðafræðin óviss fyrir það magn sem þarf og enginn alvöru áhugi virðist heldur vera fyrir hendi enda yrði framkvæmdin gríðarleg. Setjum svo að við ætlum að taka aðeins um fjórðung þess kolvetnis sem er losað árlega í andrúmsloftið, þá yrði það um 9 milljarðar tonna af um um 37 milljörðum tonna sem er losað árlega. Þetta er stór hluti af því magni sem olíuiðnaðurinn er að framleiða á ári. Það er því ekki nokkur leið að okkur takist að þróa og byggja upp slíkan iðnað á þeim tíma sem til þarf.
Það er sama hvar litið er, það tekur tíma og þarf gegndarlaust fjármagn að breyta loftslaginu og það virðist bara ekki vera nægur vilji eða geta hjá leiðtogum heimsins að gera neitt í þessu, því miður.
Afleiðing er því talin verða áframhaldandi og vaxandi þurrkar, ræktarlönd og vistsvæði hverfa, flóttamannavandinn verður óviðráðanlegur og svo aldauði lífs á jörðu. Það er því mikilvægt að þjóðríkin taki sig saman og grípi til ráða sem allra fyrst.
Lokaorð
Ég þakka Sigurði Brynjólfssyni og Magnúsi Garðarssyni fyrir að hvetja mig til að gera þessa samantekt og Þórunni R. Ingvarsdóttir stúdent úr Fjölbrautarskólanum í Garðabæ fyrir að fá að notast við lokaritgerð hennar um lífdauðann og ónafngreindum veðurfræðing fyrir yfirlestur.
Heimildir eru m.a. bækur, fyrirlestrar, greinar og viðtöl við vísindamenn ofl. sem má auðveldlega finna á netinu eins og; Ralph Cicerone, prófessor í Háskólanum í Kaliforníu. Jem Bendell, prófessor, Háskólanum í Cumbria. David Wallace-Wells, ritstjóri. Peter Wadham prófessor emeritus, Cambridge Háskóli. Rupert Read, prófessor frá Oxford og Natlie Shakova Rússnenskur vísindamaður. Einnig skýrslur á vef Veðurstofunnar.
Ólafur Sigurðsson, matvælafræðingur.