Oddviti Framsóknar og óháðra í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sá sig af einhverjum ástæðum tilneyddan að nefna á Facebook að Miðflokkurinn styðji skattahækkanir í bænum. Um er að ræða að nýta útsvarsheimildina sem lög gera ráð fyrir, þ.e. að hækka hana úr 14,48% í 14,52% sem er hámarksútsvar. Ber hann sér á brjóst og hreykir sér af því að meirihlutinn, þ.e. samkrull Framsóknar og óháðra og síðan Sjálfstæðisflokks vilji með þessu létta greiðslubyrði á barnafólk.
Það sem bæjarfulltrúi samkrullsins nefnir ekki er eftirfarandi:
- Hækkun á útsvarsprósentu úr 14,48% í 14,52% þýðir hækkun fyrir þann sem hefur 750.000 kr. á mánuði uppá 300 kr.
- Hann nefnir ekki að fyrir bæjarsjóð þýðir þetta rúmlega 3 milljónir á mánuði eða 36 milljónir á ári.
Það sem hann nefnir ekki heldur er að þessa peninga eigi mögulega að fá frá þeim sem höllustum fæti standa, öldruðum og öryrkjum. Samkrull Framsóknar og óháðra og Sjálfstæðisflokkurinn (ásamt reyndar Viðreisn) vilja hækka verðskrá fyrir heimilisaðstoð við aldraða og öryrkja um 24% eða 150 kr./klst. Þetta þýðir að 2ja klst. heimilisaðstoð við aldraða og öryrkja hækkar um sömu upphæð og hækkun mannsins með 750.000 kr. á mánuði. Það má alls ekki rugga bátnum þannig að maðurinn með 750.000 kr. í laun auki skattbyrði sína um 300 kr. en réttara að taka það frá þeim sem minnst hafa. Já með þessu á að létta undir greiðslubyrði á barnafólki (300 kr.) en taka það frá öldruðum og öryrkjum.
Það sem hann nefnir ennfremur ekki er að fyrirhugaðar hækkanir á vissum þáttum gjaldskrár eru langt yfir tilmælum þeim sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út vegna lífskjarasamninganna. Með þessu er meirihlutinn í Hafnarfirði að gefa lífskjarasamningunum langt nef og telja sig yfir slíka samninga hafnir.
Sigurður Þórður Ragnarsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins.