fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAtvinnulífSagaNatura – Öflugt hafnfirkst líftækni- og framleiðslufyrirtæki

SagaNatura – Öflugt hafnfirkst líftækni- og framleiðslufyrirtæki

Varð til við samruna SagaMedica og KeyNatura

Hafnfirska fyrirtækið SagaNatura ehf. varð til við sameiningu fyrir­tækjanna SagaMedica heilsujurtir ehf. sem stofnað var árið 2000 og Keynatura ehf. sem stofnað var árið 2014.
Tilgangur með rekstri Sagamedica var að þróa og framleiða hágæða heilsu­vörur úr íslenskum lækn­inga­jurtum og markaðssetja heima og erlendis. Að stofnun fyrirtækisins stóðu dr. Sigmundur Guðbjarnason, dr. Steinþór Sigurðsson, Bændasamtök Íslands, Ævar Jóhannesson og Þráinn Þorvaldsson. Var starfsemin byggð á grunni rannsókna sem dr. Sigmundur lífefnafræðingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, hóf árið 1992. Þekkt­asta vörumerki fyrirtækisins var SagaPro en fyrirtækið hefur náð góðum árangri í útflutningi á sínum vörum.

Aðsetur SagaNatura við Suðurhellu.

Keynatura var sprotafyrirtæki sem stofnað var af nokkrum aðilum með þekk­ingu úr mismunandi áttum. Fyrir­tækið tók þátt í Startup Energy Reykja­vík viðskiptahraðlinum í byrjun árs 2015 en þar fengu sjö fyrirtæki fimm milljónir króna í hlutafé, ókeypis skrifstofuaðstöðu og aðstoð yfir 60 aðila úr atvinnulífinu og akademíunni yfir tólf vikna tímabil. Þetta nýtti fyrir­tækið sér vel og tryggði sér svo rekstrar­fjármagn frá Eyri Sprotum.

Astaxanthin er eitt öflugasta andoxunarefni sem til er.

Fyrirtækið byggði upp þörunga­framleiðslu í Hafnarfirði en vörur fyrir­tækisins innihalda náttúrulegu þörunga­afurðina astaxanthin sem fyrirtækið framleiðir en það er öflugasta andox­unarefni sem fyrirfinnst í náttúrunni.

Það var svo árið 2017 að fyrirtækin tvö hófu formlegt samstarf með það að markmiði að ná ávinningi af samnýtingu á þverfaglegri þekkingu á sviði rann­sókna, framleiðslu og sóknarfærum á innlendum sem og erlenda markaði. Ári síðar voru fyrirtækin sameinuð undir nafni SagaNatura.

SagaNatura þróar og framleiðir íslensk fæðubótarefni og heilsuvörur úr þörungum og heilsujurtum. Þörungarnir eru ræktaðir hér í Hafnarfirði og notuð er lífræn ætihvönn úr Hrísey.

200 milljón kr. Evrópu­sam­bands­styrkur

Nýlega hlaut SagaNatura 200 milljóna króna styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins sem nefnist SME Instrument. SagaNatura var á meðal þúsunda fyrirtækja sem sótti um þessa styrkveitingu og er þetta því mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið.

Sjöfn Sigurgísladóttir framkvæmdastjóri.

„Dr. Steinþór Sigurðsson, vísinda­maður hjá SagaNatura, hefur uppgötvað áður óþekkt efni í íslenskri ætihvönn sem hefur slakandi virkni á þvagblöðru. Við höfum nú sótt um einkaleyfi á notkun þessa efnis fyrir ofvirka blöðru. Styrknum verður varið í að sanna virkni efnisins, hanna nýja vöru með stöðluðu magni af þessu virka efni og framkvæma 200 manna klíníska rannsókn á fólki með ofvirka blöðru. Styrkurinn mun einnig nýtast í að hefja ræktun og kynbætur á hvönn með því markmiði að auka magn þessa virka efnis. Tilgangur verkefnisins er að hjálpa þeim sem kljást við ofvirka blöðru með náttúrulegri lausn sem er án allra aukaverkanna. Þeim sem kljást við ofvirka blöðru er oftar mál og þurfa að pissa á nóttunni, en talið er að um 10% mannkyns hafi ofvirka blöðru sem svarar til 500 milljóna einstaklinga. Tíðni þessa sjúkdóms eykst með hækk­andi aldri,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir framkvæmdastjóri SagaNatura.

Vöruþróun

SagaPro er þekktasta og elsta vörumerki fyrirtækisins.

Undanfarið hefur fyrirtækið verið að breyta umbúðum en flestar vörur sem seldar eru undir merkinu KeyNatura eru nú í umhverfisvænum áldósum.

Af framleiðsluvörum fyrirtækisins má nefna SagaPro, SagaFemme og SagaMemo, AstaLýsi, AstaEye, Asta­Cardio, AstaFuel, AstaSkin og Íslenskt Astaxanthin auka Voxis hálstaflna og hálsmixtúru. Fyrirtækið selur einnig hrávörur og sínar vörur undir merkjum annarra og þá mest til útlanda.

SagaPro og SagaFemme hafa getið sér gott orð fyrir að gagnast gegn of tíðum þvaglátum. Hins vegar eru AstaEnergy og AstaFuel m.a. ætlaðar íþróttafólki. AstaEnergy er sagt hjálpa til með endurheimt eftir erfiðar æfingar sem þýðir að íþróttafólk er fljótara að koma sér af stað eftir æfingu auk þess sem varan bætir bæði þol og styrk. AstaFuel er vökvablanda sem sögð er henta vel þeim sem stunda æfingar, eru að fasta eða eru á ketó mataræði.

Nánari upplýsingar um vörurnar má finna á keynatura.is

Frá kynningu á nýrri heimasíðu Keynatura í nóvember

Aukinn vöxtur

Fyrirtækið hefur stækkað hratt og hefur húsnæðisþörfin aukist. Fyrirtækið er með um 1.000 m² húsnæði við Suð­ur­hellu og nýtir einnig önnur lager­húsnæði.

Tryggvi E. Mathiesen framleiðslustjóri.

Starfsfólk fyrirtækisins hefur þróað eldisker fyrir þörungaframleiðsluna sem taka mun minna rými en hefð­bundnar aðferðir með glerrörum. Tryggvi E. Mathiesen framleiðslustjóri Saganatura ehf. hefur unnið að þróun kerjanna. Kerin eru lokuð og við fram­leiðsluna eru notaðir ljóstvistar (LED) og þó þeir taki langtum minna rafmagn en hefðbundnar perur þá er fjöldinn svo mikill að HS Veitur þurftu að byggja sérstaka spennistöð utan við fyrirtækið til að geta afhent nægilegt afl. Þurrk­ferillinn er líka þróaður af starfsfólki fyrirtækisins en mikilvægt var að hanna þurrkara sem lágmarkaði niðurbrot andoxunarefnisins astaxanthins sem er mjög hvarfgjarnt eins og andoxunarefni eru í sjálfu sér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2