fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanForgangsraðað í þágu velferðar

Forgangsraðað í þágu velferðar

Ágúst Bjarni Garðarsson og Margrét Vala Marteinsdóttir skrifa:

Mikið hefur verið rætt um hækkun á leiguverði í félagslega húsnæðiskerfinu hjá okkur hér í Hafnarfirði. Mikilvægt er að allur rekstur húsnæðiskerfisins sé sjálfbær svo að hægt sé að halda áfram að fjölga íbúðum í húsnæðiskerfinu líkt og gert hefur verið markvisst á undan­förnum árum. Áætlanir okkar gera ráð fyrir áframhaldandi fjárfestingu þar sem verja á 500 milljónum króna á ári árin 2020 til 2023 til kaupa á félags­legum íbúðum, eða samtals fyrir 2.000 milljónir króna.

Breyting á húsnæðisstuðningi

Í október síðastliðinum samþykkti fjölskylduráð þá breytingu að íbúar í félagslegu húsnæði eiga nú rétt á sér­stökum húsnæðisstuðningi frá Hafnar­fjarðarbæ. Sá stuðningur kemur til viðbótar við þann húsnæðisstuðning sem ríkið veitir og íbúar hafa hingað til einungis átt rétt á. Þessi breyting mun vega upp á móti hækkun leiguverðs og hafa þau áhrif að húsnæðiskostnaður þeirra tekjulægstu mun lækka frá því sem nú er. Auk þess er rétt að benda á þá staðreynd, að þrátt fyrir þessa breyt­ingu verður Hafnarfjarðarbær áfram með lægsta leiguverðið miðað við önnur óhagnaðardrifin leigufélög sem rekin eru á sömu forsendum og kerfið okkar.

Fjölskylduvænt bæjarfélag

Í fyrstu fjárhagsáætlun núverandi meirihluta, var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum aukinn til mikilla muna og nýjum systkinaafslætti var komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Aukinn systkinaafsláttur og hærri frístundastyrkur dregur úr útgjöldum barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er kærkomin kjarabót fyrir barnmargar fjölskyldur. Allt er þetta í takt við fjölskylduvænar áherslur meirihlutans sem hefur það markmið að létta undir með fjölskyldufólki og við það munum við áfram standa.

Leiðréttingar en áfram lægst

Almennt mun gjaldskrá fyrir árið 2020 haldast óbreytt, eða hækka í takt við Lífskjarasamning. Þrátt fyrir leið­réttingu á fjórum liðum í gjaldskrá fjöl­skyldu- og barnamálasviðs, verður gjald­­skráin í Hafnar­firði áfram sú lægsta á höfuð­borgar­svæðinu. Við mun­um halda áfram að bæta þjónustuna okkar og verja viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þetta er allt saman hægt að gera, vernda og tryggja án þess að hækka skatta á íbúa Hafnarfjarðar líkt og fulltrúar Miðflokksins, Samfylk­ingarinnar og Bæjarlistans lögðu til.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs

Margrét Vala Marteinsdóttir, varaformaður fræðsluráðs.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2