fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirFornbátaskrá gefin út til að stuðla að bættri bátavernd

Fornbátaskrá gefin út til að stuðla að bættri bátavernd

Aðeins einn hafnfirskur bátur varðveittur í Byggðasafni Hafnarfjarðar

Samband íslenskra sjóminjasafna gaf nýverið út fornbátaskrá og leiðarvísi við mat á varðveislugildi eldri báta og skipa. Útgáfan er afrakstur mikillar vinnu undanfarin ár og hefur það að meginmarkmiði að vekja aukna athygli á stöðu bátaverndar í landinu.

Um tuttugu  söfn, setur og sýningar um land allt eiga aðild að samtökunum. Fornminjasjóður og Safnasjóður styrktu verkefnin.

Fornbátaskrá

Tilgangurinn með gerð fornbátaskrárinnar er að safna upplýsingum um varðveitta fornbáta og gefa yfirlit yfir stöðu bátaverndar í landinu.

Skránni er ætlað að stuðla að bættri bátavernd og auðvelda alla vinnu við ákvarðatökur um hvað æskilegt sé að varðveita til framtíðar og hvað ekki.

Ennfremur er skránni ætlað er að gera bátaarfinn sýnilegan umfram það sem nú er í þeirri von að auka skilning stjórnvalda og almennings á gildi hans.

Skráin tekur til báta í vörslu safna, sýninga og setra sem og báta á skipaskrá Samgöngustofu (þ.e. eru sjófærir) og eru eldri en frá 1950, en samkvæmt núgildandi lögum eru þeir aldursfriðaðir. Heildarfjöldi báta í skránni er um 190.

Leiðarvísir við mat á varðveislugildi eldri skipa og báta

Tilgangurinn með gerð leiðarvísisins er fyrst og fremst að stuðla að bættri bátavernd og gera alla vinnu markvissari við ákvarðatökur um hvað æskilegt sé að varðveita til framtíðar og hvað ekki. Einnig að vera hjálpartæki við endurmat á varðveislugildi báta.

Settir eru fram matsþættir, í fimm liðum, við mat á varðveislugildi báta, þ.e. menningarsögulegt gildi, upprunalegt ástand, upplifunar og fagurfræðilegt gildi, ástand, sjóhæfni og notkun. Allir matsþættir undir hverjum lið fyrir sig fá einkunn og að lokum er reiknað meðaltal.

Bátafriðunarsjóður

Á Íslandi er ekki til bátafriðunarsjóður. Hann hefur lengi verið mikið áhugamál aðildarfélaga sambandsins. Bátafriðunarsjóður hefur verið til umræðu á Alþingi í tvígang, árin 2000 og 2011, en aldrei orðið að veruleika.

Nú er hægt að sækja um styrki í fornminjasjóð fyrir viðhaldi á bátum og skipum, sérstaklega þeim sem eru eldri en 1950. Framlög í sjóðinn eru hins vegar allt of lág til að sinna öllum þeim verkefnum sem honum eru falin, m.a. fyrir það að honum er einnig ætlað að fjármagna fornleifarannsóknir í landinu.

Framlag úr Fornminjasjóði 2013-2019 til báta og skipa var 13,5 millj. króna sem er um 5% af heildarúthlutun sjóðsins á framagreindu tímabili. Á sama tíma hefur Húsafriðunarsjóður veitt styrki til verkefna tengdum verndunar húsa og kirkna að upphæð 1,4 milljarði króna.

Í tilkynningu frá stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna segir að það sé von þeirra að hreyfing fari nú að komast á þessi mál og fjárveitingar til verndunar báta og skipa verði efldar. „Þannig má koma í veg fyrir að fleiri varðveisluhæfir bátar og skip glatist og þar með sá mikilvægi þáttur í sögu landsins sem bátar og skip gegndu.“

Bátar í Hafnarfirði

Eftirfarandi umsögn er skrifuð af safnstjóra Byggðasafns Hafnarfjarðar, Birni Péturssyni í ágúst 2017:

„Byggðasafn Hafnarfjarðar á aðeins þrjá gamla báta sem má teljast lítið í bæ þar sem fiskveiðar hafa verið helsta atvinnugreinin frá örófi alda. Að því leiti hafa allir bátarnir varðveislugildi. Við teljum hins vegar að tveir af framangreindum bátum hafi hátt varðveislugildi. Það eru Melshúsabáturinn og Fleygur ÞH 301.

Melshúsbáturinn er merkilegur að mörgu leiti, hann er dæmigerður fyrir báta sem gerðir voru út frá Hafnarfirði í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Hann var smíðaður á Álftanesi og hefur hið svokallaða Engeyjarlag. Hann er að miklu leiti upprunalegur. Báturinn var í eigu Hafnfirðings nánast frá upphafi og var að mestu gerður út frá Hafnarfirði. Við teljum því að þessi bátur hafi mikið varðveislugildi.

Fleygur var smíðaður í Hafnarfirði í Bátasmiðju Breiðafjarðar, sem síðar hét Bátalón. Hann er fyrirmynd svokallaðra DAS báta. Á tímabili réðst Hafnarfjarðarbær í átak til að fjölga bátum sem gerðir voru út frá bænum og voru þeir smíðaðir í sömu bátasmiðju. Fleygur er í lélegu ásigkomulagi en þar sem hann var smíðaður í Hafnarfirði og einn af fáum bátum safnsins teljum við hann hafa mikið varðveislugildi.

Eintrjáningurinn hefur enga sérstaka sögu og tengist Hafnarfirði ekki á neinn hátt nema að gefandinn var Hafnfirðingur. Því teljum við að eintrjáningurinn hafi ekki eins hátt varðveislugildi og hinir tveir bátarnir.“

Þess má geta að ekki er til áætlun um varðveislu Fleygs og árið 2017 gerði Björn Pétursson ráð fyrir að honum yrði fargað.

Bátaskrár safna og leiðarvísi má nálgast hér

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2