fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSamþykkt byggingarfulltrúa felld úr gildi vegna rokkbars hjá blómabúð

Samþykkt byggingarfulltrúa felld úr gildi vegna rokkbars hjá blómabúð

Skipulags- og byggingarnefnd hefði átt að fjalla um málið og láta grenndarkynna

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að heimila breytt innra fyrirkomulag hússins nr. 26 við Bæjarhraun sem hýsir Blómabúðina Dögg og einnig Rokkbarinn sem deilt var um.

Með bréfi þann 2. maí 2019 kærðu Fjóluvellir ehf., Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, eigandi Blómabúðarinnar Dögg, ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun „sem felur í sér stórbreytta notkun“. Var þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með umsókn, dags. 11. mars 2019, sótti eigandi matshluta 102 í umræddri fasteign um að breyta innra fyrir­komulagi Bæjarhrauns 26 þannig að húsnæðið hentaði sem veitingastaður í flokki III. Byggingar­fulltrúi samþykkti erindið á afgreiðslu­fundi 3. apríl 2019 í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og var sú ákvörðun kærð.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að lóðin  Bæjarhraun 26 sé á landnotkunarsvæði, sem skilgreint sé sem athafnasvæði, merkt AT1, í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Er og m.a. vísað til þess að skipulagslega séu engar forsendur sem mæli gegn því að heimila rekstur veitingahúss að Bæjar­hrauni 26. Byggingarleyfisumsókn um breytingar á innra fyrirkomulagi í eign 0102 hafi verið samþykkt þar sem hún samræmdist viðkomandi skipulagsuppdráttum og uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Kærandi vísaði til þess að rekstur blómaverslunar hafi verið í tæp 40 ár að Bæjarhrauni 26. Í upphafi hafi húsnæðið ,sem þá var verið að breyta í vínveitinga-, skemmti- og hljómleikastað fyrir þungarokk, verið hannað með rekstur verslunar í sér­hönnuðu blómahúsi í huga. Því hafi kærandi í raun alltaf mátt búast við að fyrirhugaður rekstur yrði aldrei leyfður án samþykkis kæranda.

Í málsgögnum kemur fram að kærandi hafi bent skipulags­­yfirvöldum á að vilji þau tryggja Íslenska Rokkbarnum framtíðarhúsnæði sé þeim í lófa lagið að kaupa eignarhluta kæranda ásamt byggingarrétti, sem og að greiða blóma­versluninni skaðabætur í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Ekki sótt um samþykki hins eigandans

Þá segir að sterk neikvæð afstaða kæranda vegna beiðni um samþykki um rekstrar­leyfi til handa Íslenska Rokkbarnum hafi strax komið fram. Samkvæmt lögum og leiðbeiningum frá byggingar­­­fulltrúa hefði samþykki kæranda þurft að liggja fyrir til að leyfa eða samþykkja rekstur vínveitinga- og hljómleikastaðar.

Af hálfu bæjaryfirvalda var vísað til þess að um hafi verið að ræða umsókn um breytingu á innréttingu verslunar- og þjónusturýmis á fyrstu hæð. Við töku ákvörðunarinnar hafi legið fyrir þær forsendur að umrætt húsnæði væri staðsett á landnotkunar­svæði sem skilgreint væri sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi Hafnar­fjarðar. Hafi því verið ljóst að á lóðinni Bæjarhrauni 26 sé meðal annars gert ráð fyrir að þar sé rekin veitinga- og/eða skemmtistaður. Að því virtu hafi byggingarfulltrúi samþykkt umrædda umsókn um breytingu á innra fyrirkomulagi húsnæðisins, enda hafi umsóknin verið í samræmi við gildandi skipulag og hafi uppfyllt skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Starfsleyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar sem hann nýtti sér ekki.

Á ódeiliskipulögðu svæði

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að lóðin Bæjarhraun 26 sé á ódeiliskipulögðu svæði og er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar að innra skipulagi húss á lóðinni verði breytt að hluta á þann veg að húsnæðið henti sem veitingastaður í flokki III. Bendir nefndin á að skv. skipulagslögum sé skipulagsnefnd heimilt að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu en það hafi ekki verð framkvæmd. Þá hefur málið ekki komið til kasta skipulagsnefndar og hún því ekki nýtt sér greinda heimild 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að falla frá grenndarkynningu.

Var því hin fellda ákvörðun felld úr gildi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2