Fljúgandi hálka var í dag á Suðurlandsveginum og var hún sennilega einna verst nálægt Bláfjallaafleggjaranum og á Hellisheiðinni nálægt Skíðaskálanum.

Einnig var mjög hált á Bláfjallaveginum en þar var ekki mikil umferð þar sem lokað var í Bláfjöllum. Þar voru þó ýmsir á ferð, m.a. voru björgunarsveitir á æfingum. Nýliðar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar voru meðal þeirra sem voru í Bláfjöllum um helgina en þeir gistu í snjóhúsum sem þeir grófu í sköflum.

Um kl. 19 í kvöld fór rúta frá Kynnisferðum út af veginum skammt frá gatnamótunum að Jósefsdal. Var hún á leið til Reykjavíkur og fór út af hægra megin en hélst á hjólum. Ekki er vitað hvort einhvern hafi sakað en var það ekki líklegt miðað við aðstæður. Önnur rúta var fljótt komin að svæðinu og stuttu síðar mátti sjá slökkviliðsbíl og sjúkrabíla aka á vettvang.