fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirHvar verður stjórnsýsla Hafnarfjarðar til húsa?

Hvar verður stjórnsýsla Hafnarfjarðar til húsa?

Starfshópur verður skipaður til að rýna möguleika á húsnæði fyrir stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar

Bæjarráð kynnti í morgun drög að erindisbréfi fyrir vinnuhóp sem á að greina og skoða stöðu húsnæðismála stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Hópurinn á meðal annars að skoða:

  1. Óbreytta staðsetningu
  2. Byggingu nýs ráðhúss
  3. Endurbyggingu annars húsnæðis í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar
  4. Viðbyggingu við ráðhúsið Strandgötu 6

Þá er hópnum ætlað að skoða aðra kosti kjósi hann svo. Hópurinn skal skoða hvort tveggja, að húsnæðið verði í eigu bæjarfélagsins og leiguhúsnæði.

Ekki kemur fram í fundargerð bæjarráðs hverja afgreiðslu erindisbréfið fékk.

Fyrsta sérbyggða ráðhús landsins

Ráðhús Hafnarfjarðar var tekið í notkun í október 1944 (ekki 1942 eins og kemur fram í erindisbréfinu). Var það fyrsta ráðhúsið á Íslandi sem var sérstaklega byggt sem slíkt. Húsið þótt þá hið glæsilegasta en í grein í Alþýðublaðinu sagði á þeim tíma að það hefði mátt vera frjálsara í umhverfinu svo það nyti sín betur í miðjum bænum. Í húsinu var og er einnig bíósalur og var fyrsta sýningin 9. janúar 1945 og almenningi síðan boðið daginn eftir.

Húsið er teiknað af Sigmundi Halldórssyni arkitekt en teikningarnar voru samþykktar í júní 1942. Var grunnflötur hússins 597 m² en húsið að hluta á tveimur hæðum ásamt risi.

Á þessum tíma dugði húsið fyrir starfsemi skrifstofu Hafnarfjarðarbæjar, hafnarskrifstofu, skrifstofu skattstjórans auk þess sem fundarsalurinn átti að nýtast til ýmissar félagastarfsemi og æfingar Leikfélags Hafnarfjarðar. Auk þess var Sparisjóður Hafnarfjarðar þar sem nú er þjónustuver á fyrstu hæðinni og sjúkrasamlagið var einnig í húsinu.

Stjórnsýsla á nokkrum stöðum

Í dag hefur stjórnsýsla bæjarins aðsetur á fjórum stöðum, Strandgötu 4, Strandgötu 6, Linnetsstíg 3 og Norðurhellu 2 í alls um 3.600 m² en hluti þess er undir grófari starfsemi.

Hópurinn, sem starfar í umboði bæjarráðs, skal skila skýrslu til bæjarráðs í október 2020 en í hópnum verða 3 frá meirihluta og 2 frá minnihluta auk þess sem bæjarstjóri, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu starfa með hópnum.

Ráðhús í miðbæjarmyndinni

Það vakti athygli þegar skýrsla starfshóps um nýtt miðbæjarskipulag var kynnt þá var hvergi minnst á ráðhús bæjarins. Fyrir löngu er vitað að ráðhúsið er allt of lítið og gagnvart bæjarbúum er það aðeins lítið þjónustuver.

Hvort bæjarstjórn hafi hugrekki til að leggja fram tillögu um nýtt ráðhús á glæsilegum stað er ekkert hægt að segja um. Ljóst er þó að ráðhús í miðbænum sem um leið væri opinn staður fyrir bæjarbúa til að leita þjónustu og kynna sér hugmyndir og framkvæmdir, gæti verið aðdráttarafl, ekki síst ef það væri sameinað með bókasafni sem þar væri sem miðstöð upplýsingamiðlunar.

Gætu bæjarbúar séð fyrir sér glæsilegt ráðhús við Fjarðargötuna, gegnt Firði, þar sem Strandstígurinn lægi í gegnum húsið?

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2