fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálBæjarstjórn samþykkti rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn

Bæjarstjórn samþykkti rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn

Full samstaða í bæjarstjórn en meirihluti hafnaði eigin rammakipulagi fyrir Hraun vestur

Á sama bæjarstjórnarfundi samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar nýtt rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði en hafnaði eigin rammaskipulagi fyrir Hraun vestur. Bæði höfðu rammaskipulögin verið undirbúin að metnaði og að virtist í góðri sátt.

Ekki hefur fengist haldgóð skýring hvers vegna þeir sem samþykktu rammaskipulag í skipulags- og byggingarráði hafni því svo í bæjarstjórn, fólk sem var í forystu fyrir gerð þess.

En það var meiri sátt um rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði og reyndar litlar umræðum um það í bæjarstjórn áður en það var samþykkt. Til marks um samstöðuna voru aðeins ritaðar 5 línur í fundargerð bæjarstjórnar um afgreiðsluna:

„Til máls tekur Kristín María Thoroddsen. Einnig tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson og svarar Adda María andsvari. Ágúst Bjarni kemur þá til andsvars öðru sinni. Þá kemur Kristín María til andsvars sem Adda María svarar.
Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.“

Hvað er rammaskipulag?

Rammaskipulag er stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð svæðisins. Í því er gerð grein fyrir öllum helstu efnistökum við uppbyggingu þróunarreita sem síðan verða nánar útfærð í deiliskipulagi. Staðfest rammaskipulag er stjórnsýslulegt tæki sem stýrir deiliskipulagsvinnu á markvissan hátt með skýr markmið og forsendur að leiðarljósi. Samþykkt rammaskipulag skal hljóta meðferð í samræmi við 4. mgr, 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tölulegar stærðir um heildarbyggingarmagn taki mið af rammaskipulagi, þótt endanlegar útfærslur, byggingarmagn, ásýnd og hæðir húsa ákvarðist í deiliskipulagi hverrar lóðar.

Langur ferill

Frá árinu 2003 hefur með nokkrum hléum verið unnið að undirbúningi fyrir nýtt rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis. Haustið 2014 var haldin opinn íbúafundur um framtíð hafnarsvæðisins þar sem íbúar og aðrir hagsmunaaðilar ræddu uppbyggingarmöguleikana og komu á framfæri athugasemdum sem voru innlegg í hugmyndavinnuna. Í framhaldinu var ákveðið að vinna forsögn fyrir svæðið og var myndaður stýrihópur með fulltrúum frá hafnarstjórn og skipulagsráði Hafnarfjarðarbæjar. Í ársbyrjun 2018 var auglýst opin hugmyndasamkeppni. Tvær tillögur báru sigur úr býtum. Vinningstillögurnar voru sameinaðar í eina og byggir þetta rammaskipulag á niðurstöðum þeirrar vinnu.

Skipulagsuppdráttur

Skipulagssvæðið afmarkast af Cuxhavengötu í vestri, Hvaleyrarbraut og Strandgötu í suðri og Strandgötu 75 (Drafnarhúsið) í austri. Í upphafi vinnu við rammaskipulagið var ákveðið í bæjarstjórn að stækka skipulagsmörkin í átt að miðbænum og nær út fyrir íþróttahúsið.

Allt svæðið er um 84.500 m² og gert ráð fyrir að heildargrunnflötur húsa verði um 42.400 m² og heildarbyggingarmagn 143.300 m². Verður nýtingarhlutfalli því 1,7 á öllu svæðinu, minnst á Flesborgarhafnarsvæðinu, 1,00 en mest á Fornubúðarsvæðinu, 2,46.

Áætlaður fjöldi íbúða er 100-200 á Flensborgarhafnarsvæðinu, 500-700 á Óseyrarsvæðinu sem ætti að gefa 1.500 – 2.500 íbúa.

Gert er ráð fyrir allt að 80.000 m² í atvinnuhúsnæði á svæðunum þremur.

Markmið

Markmið rammaskipulagsins er að endurmóta uppbyggingu við Fornubúðir, Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði með blandaðri byggði í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi. Skapa á heildstæðari byggð í anda sögu og umhverfisgæða staðarins með betri landnotkun og nýtingu innviða. Áhersla er lögð á að rekstur fyrirtækja á hafnarsvæðinu verði tryggður og að þar sé gott viðlegu- og þjónustusvæði fyrir minni fiskiskip, smábátaútgerð og skemmtibáta.

Framtíðarsýn

Með breyttum forsendum fær höfnin nýtt hlutverk sem miðar að því að styrkja samspil hafnar og bæjar með áherslu á mótun strandlengjunnar, bættum tengingum að miðbæ og þéttingu byggðar við höfnina. Rammi almenningsrýmisins er límið í skipulaginu sem markar mismunandi þróunarreiti og myndar samfellda byggð. Skipulaginu er því bæði ætlað að standast tímans tönn og samtímis vera sveigjanlegt stjórntæki þegar kemur að uppbyggingu einstakra lóða. Ef þörf krefur er hægt að aðlaga skipulagið breyttum samfélagslegum, efnahagslegum og pólitískum forsendum. Þar sem gert er ráð fyrir almenningssvæði í háum gæðaflokki, fjölbreyttri atvinnu og íbúðum í nánum tengslum ásamt afþreyingu, mun höfnin laða að sér öflugt mannlíf sem stuðlar að bættri notkun og upplifun.

Miklar breytingar á landnýtingu

Yfirlitsmynd

Umtalsverð breyting verður gerð á landnotkun, lóðamörkum verður hliðrað jafnframt því sem nýting lóða og innviða verður stórbætt. Þar sem áður var léttur iðnaður, fiskvinnsla og vöruhús, verður í framtíðinni blönduð starfsemi; íbúðir, atvinnustarfsemi, afþreying, verslun og þjónusta. Á milli Óseyrar- og Hvaleyrarbrautar rís þétt byggð með fjölbreyttum íbúðagerðum og grænum inngörðum. Á svæðinu þar sem Slippurinn og Íshúsið eru nú til húsa, er gert ráð fyrir smágerðri starfsemi og íbúðum á efri hæðum. Fornubúðir, svæðið norðan Hvaleyrarbrautar verður borgarmiðað, þétt byggð og blönduð starfsemi atvinnu- og skrifstofuhúsnæði, hótel- og veitingahús, rannsóknar- og menntastofnanir ásamt aðstöðu fyrir farþegaskip.

Þróunarreitir

Skýringarmynd sýnir yfirlitsmynd yfir alla þróunarreiti á uppbyggingarsvæðinu. Fyrir hvern þróunarreit hafa verið gerðir skilmálar sem taka á atriðum eins og byggingarmagni, hámarkshæðum, starfsemi, uppbroti, sjónlínum, götuhliðum og þakgerðum.

Áhugaverðir áningarstaðir

Vistgötur og bryggjupallar

Hryggjarstykkið á Flensborgarhöfn er vistgatan, fjölnota umferðar- og dvalarrými. Gatan hlykkjast um svæðið og tengir mismunandi svæði og starfsemi saman, s.s. Siglingaklúbbinn Þyt, dráttarbraut, Íshúsið, Hafnartorgið og biðstöð Borgarlínu.

 

Bryggjupallar og kennileiti

Vistgatan felur í sér fjölbreyttar samgöngugerðir í einu og sama göturýminu, fótgangandi og hjólandi hafa forgang á meðan hæg bílaumferð er víkjandi.

Gatan er í senn þjónustugata fyrir aðföng fyrirtækja, innkeyrsla í bílastæðakjallara og tryggir auk þess aðkomu fyrirtækja og eigenda smábáta að hafnarbakkanum.

 

Umferð og samgöngur

Endurmótun hafnarsvæðis og þétting byggðar kallar á samþættar umferðarlausnir og fjölbreytta samgöngumáta sem miðast við að takmarka notkun einkabíla. Hafnarsvæðinu verður breytt úr grófu atvinnusvæði í mannvænt umhverfi. Lögð er áhersla á að umferð gangandi og hjólandi verði greið en tryggja þarf um leið umferð að fyrirtækjum sem reiða sig á aðkomu flutningabíla.

Gert er ráð fyrir að akandi umferð til og frá Suðurhöfn liggi um ný T-gatnamót að Strandgötu sem munu leysa núverandi hringtorg af hólmi. Þaðan deilist umferðin ýmist í miðbæinn eða á Suðurhöfnina. Núverandi Strandstígur sem þjónar gangandi og hjólandi vegfarendum mun tengja miðbæinn við skipulagssvæðið með vistgötu sem gengur frá slippsvæðinu og Íshúsinu að Fornubúðum 10. Vistgatan hefur það hlutverk að sameina fjölbreytta notkun í eitt göturými þar sem fótgangandi og hjólandi eru í fyrirrúmi og hægfara bílaumferð er víkjandi. Gatan er í senn þjónustugata fyrir aðföng fyrirtækja og innkeyrsla í bílastæðakjallara, auk þess sem hún tryggir aðkomu eigenda smábáta að hafnarbakkanum.

Lagt er til að skoða nánar framtíðarlausn sem byggir á því að setja Hvaleyrarbraut í stokk. Sú lausn, sem er utan skipulagssvæðisins og því ekki hluti af tillögunni að rammaskipulaginu, hefði jákvæð áhrif á hljóðvist, umferðaröryggi og þéttingu byggðar, auk þess að styrkja tengsl hafnarsvæðisins og íbúðarhverfanna ofar í hlíðinni.

Með komu fyrirhugaðrar Borgarlínu fær Strandgata nýtt hlutverk og bætta ásýnd. Í drögum Mannvits, ráðgjafa í umferðarmálum, er gert ráð fyrir að akreinar Borgarlínu séu í miðri Strandgötu og að biðstöð sem þjónar hafnarsvæðinu verði komið fyrir á milli nýrra T-gatnamóta og Íshússins. Jafnframt er gert ráð fyrir bið- og skiptistöð Borgarlínu við verslunarmiðstöðina Fjörð.

Þrjú áherslusvæði Fornubúðir, Óseyrarhverfi og Flensborgarhöfn

Á uppbyggingarsvæðinu rísa þrjú hverfi sem tengjast innbyrðis um samfellt almenningssvæði hafnarbakkans. Hverfin sem fengið hafa vinnuheitin Óseyrarhverfi, Fornubúðir og Flensborgarhöfn hafa hvert um sig sín séreinkenni. Hönnun hverfanna mótast af staðaranda og samhengi hvers svæðis fyrir sig, s.s. kvarða húsa, húshæða og starfsemi.

Fornubúðir

Við Fornubúðir rís byggð, 4-6 hæðir, sem hýsir blandaða starfsemi. Við Suðurbakkann leggja meðalstór farþegaskip sem blása lífi í mannlífið á hafnarsvæðinu.

Endurmótun Fornubúða miðast við einfalda randbyggð og skilvirkt gatnakerfi. Staðarandi hafnarinnar er fangaður, en samtímis breytist almenningssvæðið úr því að vera hrátt iðnaðarsvæði í aðlaðandi borgarumhverfi. Við hönnun almenningsrýmisins er gert ráð fyrir náttúrlegum yfirborðsefnum sem fara vel á staðnum.

Óseyrarsvæði

Á milli Óseyrar- og Hvaleyrarbrautar víkja lágreistar skemmur fyrir vistvænni íbúðabyggð. Hverfið, sem hefur fengið vinnuheitið Óseyrarhverfi, er skipt í sjálfstæða byggingarreiti sem eru misstórir og með mismunandi lögun. Á hverjum reit er gert ráð fyrir sameiginlegum inngarði fyrir íbúa, sérafnotaflötum og leiksvæðum.

Eftir endilöngu hverfinu liggur miðlæg vistgata sem þræðir sig gegnum byggðina og sameinar umferðarrými, græn svæði og leiksvæði. Húsin eru 3-5 hæðir. Á ákveðnum stöðum eru leyfð kennileiti þar sem 6. hæðin er inndregin.

Lagt er upp með að hafa íbúðagerðir fjölbreyttar þar sem stuðlað er að félagslegri blöndun,
sérbýli í bland við fjölbýli, sérgörðum í bland við sameiginlega garða. Í skilmálum er kveðið á um lágmarks uppbrot húshluta og opnar gönguleiðir. Efstu hæðir húsa eru inndregnar.
Einnig er farið fram á fjölbreytta ásýnd bygginga í skilmálum, húshlutum verði skipt upp og fjölbreytt efnisvali á útveggjum, í litum og þakgerðum s.s. skáþök í bland við flöt þök og þakgarða.

Inngarðar tengjast umhverfinu með stígum og grænum svæðum. Gert er ráð fyrir verslun- og þjónustu á jarðhæð íbúðarhúsa sem eru staðsett gegnt Fornubúðum 10 og mynda þjónustuþyrpingu á milli Krónunnar, Íshússins og biðstöðvar Borgarlínu.

Flensborgarhöfn

Hverfið hefur fengið vinnuheitið Flensborgarhöfn. Þyrpingar smágerðra húsa mynda óreglulegt byggðamynstur með aðlaðandi göngu- og hjólaleiðum ásamt skjólgóðum dvalarsvæðum. Starfsemin er blönduð, afþreying, smávöruverslun, nýsköpun, og skapandi listir ásamt íbúðum á efri hæðum.

Aðkoma að svæðinu er frá Strandgötu um miðlæga vistgötu þar sem umferð fótgangandi og hjólandi er í fyrirrúmi. Sterk tengsl á milli byggðar og hafnar er tryggð með sjónlínum. Lögð er áhersla á nálægðina við sjóinn með bryggjupöllum sem mynda samfellt göngusvæði meðfram hafnarbakkanum þar sem hægt er að ganga um í góðu veðri, sjá trillusjómenn landa fiski og fylgjast með börnum á siglinganámskeiðum. Hjarta samfélagsins er Hafnartorg, sem er staðsett við Íshúsið. Lagt er til að opna götuhliðar hússins sem snúa að vistgötunni, koma þar á fót starfsemi fyrir almenning, s.s. kaffi og veitingasölu, smávöruverslunum og sýningarsölum.

Hámarkshæð húsa á Flensborgarhöfn er 3 hæðir með tveimur undantekningum. Við Siglingaklúbbinn rís grannur útsýnisturn, ca. 15-18 metrar að hæð og á milli Strandgötu og Fornubúða 10 er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsi, lágstemndu kennileiti við biðstöð Borgarlínu.

Við Siglingaklúbbinn Þyt er gert ráð fyrir sjóbaðsaðstöðu og heitum pottum. Slippinn er
ekki hægt að endurgera, en lagt er til að reisa nýtt hús á bæjarstæði hans sem felur í sér minni frá upprunalegu mannvirki, svo sem fótspor, útlínur og þakgerð.

Ný smábátahöfn, Hamarshöfn, og Siglingaklúbburinn Þytur eru nærri miðbænum. Starfsemin lífgar upp á göngu- og hjólaleið meðfram Strandgötu, í upplifun fólks verður vegalengdin styttri og meira aðlaðandi sem hvetur til notkunar stíganna.

Hafnartorgið

Skipulagstillagan gerir ráð fyrir tveimur opnum svæðum á Flensborgarhöfn sem bæði tengjast hafnarbakkanum og miðlægri vistgötu. Hafnartorgið er þungamiðjan og aðal áfangastaðurinn, miðlægt og aðlaðandi almenningsrými á milli Íshússins og hafnarbakkans. Íshúsið er mikilvægur hlekkur til að að skapa stemningu, þar verður suðupottur fyrir nýsköpun og listir. Til að blása lífi í torgið er lagt til að götuhliðar húsa sem snúa að því séu opnar og virkar og að samspil verði milli starfseminnar í húsunum og torgsins. Í þessu sambandi er æskilegt að opna Íshúsið á móts við almenningsrýmið og koma þar upp sýnilegri starfsemi þannig að húsið verði hluti af torginu t.d. hafa þar matarmarkað, kaffihús, sýningarsal eða smáverslanir.

Notkun torgsins er breytileg og er það nógu stórt fyrir fjölmenna viðburði svo sem á sjómannadaginn, 17. júní, hafnardaga og jóla- og matarmarkað jafnt sem að þjóna gestum á virkum dögum. Sunnan við torgið er gert ráð fyrir aðstöðu smábátaeigenda, aðkomu fyrir ökutæki og skammtímastæði. Torgið verður fullhannað í deiliskipulagi, en lagt er til
að koma fyrir gróðri, bekkjum, fallegri lýsingu og jafnvel gosbrunni svo að mælikvarðinn verði manneskjulegur og torgið verði notalegur og eftirsóttur áfangastaður.

Fólk sér jafnvel fyrir sér jólaþorp á Hafnartorginu.

Byggt á samkeppni

Rammaskipulagið er byggt á tveimur tillögum sem urðu hlutskarpastar í samkeppni um svæðið.

Arkitektastofurnar Vantspijker & partners í Hollandi og Kjellgren Kaminsky Architecture AB í samstarfi við Mareld landskapsarkitekter AB í Svíþjóð hafa unnið að þessu rammaskipulagi fyrir Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhöfn. Ráðgjafi þeirra var Mannvit.

Í Samráðsnefnd um rammaskipulag voru: Kristín M. Thoroddsen, Ágúst Bjarni Garðarsson, Gylfi Ingvarsson, Karólína Helga Símonardóttir og Ólafur Ingi Tómasson.

Skoða má rammskipulagið hér.

Myndir og texti að mestu tekinn úr Rammaskipulagi Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis, dags. 23. janúar 2020.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2