fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimÍþróttirFrjálsarHættir eftir 28 ára starf

Hættir eftir 28 ára starf

Tók við af föður sínum sem hafði verið formaður í 19 ár.

Formannsstaðan í Frjálsíþróttadeild FH hefur verið í sömu fjölskyldu í 47 ár og það var haft á orði á aðalfundi deildarinnar í kvöld að á þessum árum hafi formannsstaðan aðeins flutt frá 23C til 23B.

Til að skýra þetta nánar þá endurvakti Haraldur S. Magnússon frjálsíþróttadeild FH árið 1973 og var formaður allt til 1992 er Sigurður sonur hans tók við formannsstöðunni. Haraldur bjó og býr enn á Hverfisgötu 23C og í kvöld var Úlfar Linnet kjörinn nýr formaður en hann ólst upp á Hverfisgötu 23B.

Sigurður Haraldsson

Sigurður fagnaði góðri stöðu deildarinnar í ársskýrslu sinni en bæði hefur íþróttalegur árangur deildarinnar verið mjög góður en einnig er fjárhagsleg staða deildarinnar góð og skuldaði deildin aðeins 491 þúsund kr. í skammtímaskuldir um áramót. Velta deildarinnar var tæpar 73 milljónir og hefur deildinni tekist að styðja við bakið á keppnisfólki deildarinnar betur en oft áður.

Mikil bylting var fyrir deildina með tilkomu nýju frjálsíþróttahallarinnar en að sögn Sigurðar er brýn þörf á að bæta sleggjukastsvæðið úti og reisa girðingar til að tryggja öryggi. Eiga FH-ingar besta sleggjukastara landsins Hilmar Örn Jónsson sem hefur kastað lengra en nokkur annar Íslendingur.

Íþróttakona Hafnarfjarðar er frjálsíþróttakonan Þórdís Eva Steinsdóttir svo frjálsíþróttadeildin getur verið mjög stolt af sínu fólki.

Súsanna Helgadóttir var meðal þeirra sem þökkuðu Sigurði farsælt starf.

Á fundinum var Sigurði þökkuð óeigingjarnt starf fyrir deildina, starf sem seint væri fullþakkað en Sigurður verður áfram stjórnarmaður í deildinni.

Úlfar Linnet sagðist taka við formannsstöðunni af áhuga en hann hefur verið virkur í foreldrastarfi deildarinnar og var sjálfur virkur þátttakandi á yngri árum.

Úlfar Linnet

Sagði hann ýmis mál koma á sitt borð og þau sem hann vildi færa fram. Sagðist hann ætla byrja á því að kynnast innviðunum og fá að vita hvernig allt virkar, nokkuð sem hann taldi að Sigurður hafi fengið með móðurmjólkinni. Sagði hann við viðstadda að þeir mættu búast við að hann leitaði til þeirra. Hann sagðist mjög áhugasamur fyrir samstarfinu við aðrar deildir FH og félagið allt. Lauk hann stuttu ávarpi sínu með orðunum: „Þið megið eiga von á símtali”!

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2