Hafnfirska lyfjafyrirtækið Coripharma hefur lokið rúmlega tveggja milljarða króna hlutafjáraukningu sem mun styrkja lyfjaþróun félagsins. Coripharma stefnir á markaðssetningu þrettán nýrra samheitalyfja á næstu þremur árum.
Tuttugu nýir fjárfestar koma nú að félaginu, auk eldri hluthafa Coripharma sem standa að baki um þriðjungs hins nýja hlutafjár.
Coripharma er íslenskt lyfjafyrirtæki í eigu fyrrverandi starfsmanna Actavis og fjárfesta. Frá því að félagið hóf starfsemi sína árið 2018 hefur það keypt alla lyfjaframleiðslu og lyfjaþróun Actavis á Íslandi. Coripharma sérhæfir sig í framleiðslu og þróun lyfja fyrir önnur lyfjafyrirtæki um heim allan, ásamt því að þróa sín eigin lyf.
Fyrsta samheitalyfið undir merkjum Coripharma á markað um mitt næsta ár
Áætlað er að fyrsta samheitalyfið undir merkjum Coripharma komi á markað um mitt næsta ár. Félagið gerði nýverið samninga við tvö erlend lyfjafyrirtæki: annarsvegar Midas Pharma um samvinnu við framleiðslu og markaðssetningu á lyfjum til þriðja aðila, og hinsvegar STADA, eitt stærsta lyfjafyrirtæki heims, um pökkun á 700 milljónum taflna af lyfjum árlega í þrjú ár. Í kjölfarið fjölgaði störfum hjá fyrirtækinu, en hjá Coripharma vinna í dag 110 manns. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að í lok ársins verði starfsmenn orðnir um 140 talsins.
„Örugg fjármögnun er gríðarlega mikilvæg til að tryggja öfluga lyfjaþróun og uppbyggingarstarf í lyfjaverksmiðjunni. Þróun á nýjum samheitalyfjum er kostnaðarsöm en þessi fjármögnun gerir okkur kleift að halda ótrauð áfram með markmið okkar að koma þrettán nýjum samheitalyfjum á markað og að verksmiðjan verði komin í full afköst innan þriggja ára,“ sagði Bjarni K. Thorvardarson, forstjóri Coripharma um fjármögnunina.