fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirFyrsta tilfelli COVID-19 kórónaveiru greinist á Íslandi - Uppfært

Fyrsta tilfelli COVID-19 kórónaveiru greinist á Íslandi – Uppfært

Hættustig almannavarna virkjað

Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýrri kórónaveiru (COVID-19). Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms (hósti, hiti og beinverkir). Sýnataka og greining á veiru- og sýklafræðideild Landspítali staðfesti laust eftir kl. 13:00 í dag að maðurinn væri smitaður af COVID-19 kórónaveiru. Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið hér á landi.

Í ljósi þessa mun ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni virkja hættustig almannavarna. Er þetta gert bæði vegna þess að ekkert lát er á hópsýkingu af völdum veirunnar ytra, þá sérstaklega í Evrópu, og að fyrsta tilfellið hefur nú verið staðfest hér á landi.

Var nýlega á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis

Maðurinn sem greindist var nýverið staddur á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna á skíðasvæðinu Andalo, skammt austan við hið þekkta Madonna skíðasvæði. Unnið er að rakningu smitleiða en markmið þeirra vinnu er að varpa ljósi hverjir gætu verið útsettir vegna þessa staðfesta smits.

Maðurinn var í hópi 6 annarra sem búa á Íslandi og er verið að skoða eiginkonu mannsins og dóttur sem voru með í ferðinni. Hann leitaði fyrst til lækna fyrir tveimur dögum sínum.

Til einstaklinga sem mögulega hafa verið útsettir fyrir smiti

Einstaklingar sem finna fyrir veikindum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti vegna t.d. ferðalaga eru hvattir til að hringja í 1700 (fyrir erlend símanúmer: +354 544-4113) til að fá leiðbeiningar. Þeir sem hafa verið í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra áhættusvæða. Ítarlegar upplýsingar um hina nýju kórónaveiru er að finna á landlaeknir.is og jafnframt upplýsingar um skilgreind áhættusvæði.

Smitsjúkdómalæknir sagði á blaðamannafundi í dag að fátítt væri að smit bærist á milli manna í flugvél en hópur skíðafólks frá þessu svæði er á leið til landsins með almennu flugi á morgun. Sagði hann að smit bærist annars vegar við snertingu og þá helst að fólk bæri smit á höndum upp að augum en sagði smit í lofti eingöngu geta verið í um meters fjarlægð frá smituðum einstaklingi t.d. við hnerra.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2