fbpx
Miðvikudagur, janúar 22, 2025
HeimÍþróttirHandboltiHaukakonur leika við KA/Þór í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta í kvöld

Haukakonur leika við KA/Þór í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta í kvöld

Karlalið Hauka mætir ÍBV á morgun

Undanúrslit bikarkeppninnar í handbolta verða í dag og á morgun í Laugardalshöll.

Haukar – KA/Þór kl. 18 í kvöld

Konurnar leika í kvöld þar sem KA/Þór og Haukar mætast kl. 18 og Valur og Fram kl. 20.30.

Búast má við spennandi leik hjá KA/Þór og Haukum sem sitja í 6. og 5. sæti deildarinnar með 14 stig eins og ÍBV sem er í 7. sæti. Aðeins 8 lið eru í deildinni og þrjár umferðir eru eftir svo þessi þrjú lið eru í bullandi fallbaráttu.

Liðin hafa leikið þrjá leiki í deildinni, Haukar sigruðu fyrir skömmu 27-22 og í desember 27-21 en KA/Þór sigraði í október 25-23. Verður því spennandi að fylgjast með leiknum í kvöld og Hafnfirðingar vonast að sjálfsögðu eftir því að Haukar komist í úrslitaleikinn þar sem verður við erfiðan andstæðing að etja, annað hvort Val eða Fram sem bera höfuð og herðar yfir önnur félög í deildinni.

Haukar – ÍBV á morgun kl. 18

Karlalið Hauka mætir ÍBV kl. 18 á morgun en seinni leikurinn er á milli Aftureldingar og Stjörnunnar.

Haukar sitja í 3. sæti í úrvalsdeildinni með 25 stig eftir að hafa verið á toppnum lengst af. ÍBV, sem sló FH eftirminnilega út úr bikarkeppninni, er í 6. sæti með 24 stig og því má búast við hörkuleik.

ÍBV lék Hauka illa í síðasta leik liðanna, 16. febrúar sl. og sigraði 36-28 og eiga því Haukar harma að hefna. Liðin gerðu hins vegar jafntefli í lok október, 28-28 eftir að Haukar höfðu leitt með 3 mörkum í hálfleik.

Sigri Haukar annað kvöld leika þeir annað hvort við Aftureldingu eða Stjörnuna. Afturelding sigur í 4. sæti með 25 stig eins og Haukar og Selfoss en Stjarnan er í 8. sæti með 17 stig.

Úrslitaleikir á laugardag

Úrslitaleikirnir verða á laugardag, konurnar leika kl. 13.30 en karlarnir kl. 16 og eru báðir leikirnir í Laugardalshöll.

 

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2