Laugardagur, apríl 19, 2025
HeimFréttirFulltrúi Viðreisnar telur ákvæði í samningi við Hauka brot á lögum

Fulltrúi Viðreisnar telur ákvæði í samningi við Hauka brot á lögum

Vill að Hafnarfjarðarbær afli lögfræðiálits á lögmæti ákvæðis í samningi við Hauka

Bæjarstjórn samþykki að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi á Ásvöllum á fundi sínum þann 18.9.2019 með 9 greiddum atkvæðum. Tillagan var auglýst og ein athugasemd barst. Hún kom frá íbúum sem höfðu áhyggjur af nýrri staðsetningu knatthússins við lóðarmörk að Ástjörninni og friðlandinu.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að færa byggingarreit fullstórs knatthúss í N-A enda svæðisins og að breyta hluta af íþróttasvæði í íbúðasvæði þar sem gert er ráð fyrir 100-110 íbúðum.

Skipulagsfulltrúi vann síðan greinagerð sem gerði grein fyrir ferli deiliskipulagsins. Í fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá í morgun segir m.a.: „Í greinagerðinni kemur fram að gott samráð hefur verið haft við íbúa um deiliskipulagstillöguna m.a. með íbúafundi. Einnig að leitað hafi verið umsagnar Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar og að brugðist hafi verið við ábendingum þeirra. Skipulags- og byggingarráð er sammála um að Ástjörnina og friðlandið við hana beri að vernda og bendir á að byggingarreitur knatthússins er allur innan lóðarmarka íþróttasvæðisins.“

Í greinargerð skipulagsfulltrúa segir að knatthúsið veði næst friðlýsta svæðinu á langhlið hússins þar sem það er 7 m frá lóðarmörkum en spyrnuveggir hússins nái þó að lóðarmörkum.

Segir í greinargerðinni að haldinn hafi verið íbúafundur þann 29. ágúst 2019 þar sem aðalskipulagsbreytingin var kynnt ásamt fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi.

Aðeins var haldinn fundur um aðalskipulagið og í svari við fyrirspurn blaðamanns á þeim fundi um tilfærslu á knatthúsinu svaraði skiplulagsstjóri því til að það væri deiliskipulagsmál og það væri ekki til umræðu á fundinum.

Skipulags- og byggingarráð samþykkti deiliskipulagið og vísaði því til bæjarstjórnar til staðfestingar en ekki er getið í fundargerð hvernig atkvæðagreiðsla um tillöguna fór annað en að hún hafi verið samþykkt.

Ekki í samræmi við lög

Óli Örn Eiríksson

Fulltrúi Viðreisnar í skipulags og byggingarráði Hafnarfjarðar, Óli Örn Eiríksson, lét bóka afstöðu sína og benti á að hluti samkomulags vegna uppbyggingar á svæði Hauka sem bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti virðist ekki vera í samræmi við lög.

Í samkomulaginu er gefið upp að tekjur af gatnagerðagjöldum verði notaðar til þess að fjármagna íþróttahús Hauka. Nánar tiltekið segir í 4. grein samkomulagsins: „4. Tekjur af innheimtum lóðaverðum (gatnagerðargjald byggingarréttargjald) vegna hinnar nýju íbúðabyggðar á Ásvöllum verði nýttar til uppbyggingar knatthúss á Ásvöllum.“

Í 10. gr. laga um gatnagerðargjald 153/2006 segir um ráðstöfun gatnagerðargjalds:
„Sveitarstjórn skal verja gatnagerðargjaldi til gatnagerðar í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja.“

Fullyrðir fulltrúi Viðreisnar að Hafnarfjarðarbær hafi ekki lagaheimild til þess að skuldbinda sig í samningum til þess að ráðstafa gatnagerðargjaldi til annarra framkvæmda en gatnagerðar og viðhalds gatna.

Í bókun segir:

„Er bæjarstjórn hvött til þess að afla lögfræðiálits um þennan hluta samkomulagsins við Hauka og ef ástæða reynist til, að uppfæra það sem fyrst til þess að tryggja að þetta verði ekki til þess að tefja verkefnið.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar- og óháðra létu bóka eftirfarandi:

„Samkomulag milli Hafnarfjarðarbæjar og Knattspyrnufélagsins Hauka var á borði bæjarráðs þann 16. janúar 2020 og svo til endanlegrar staðfestingar í bæjarstjórn þann 22. janúar 2020. Hér á fundi skipulags- og byggingarráðs er til umræðu breyting á deiliskipulagi og svör skipulagsfulltrúa við þeirri athugasemd sem barst.

Nú tekur fulltrúi Viðreisnar upp á því um tveimur mánuðum eftir að samkomulagið við Knattspyrnufélagið Hauka var staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bóka um það samkomulag milli aðila? þrátt fyrir að það mál sé ekki hér á dagskrá fundarins. Það er með ólíkindum að Viðreisn skuli nú á þessum tímapunkti gera tilraun til að leggja stein í götu Hauka til að hefja uppbyggingu á íþróttasvæði sínu.

Rétt er að ítreka að allt þetta ferli hefur verið í gangi í um tvö ár. Starfshópur hefur verið með málið á sínu borði og skilaði skýrslu sinni fyrir jól. Það var að frumkvæði Hauka og í samráði við bæjarfélagið – að hluta lóðar var skilað til bæjarins; á þeirri lóð stendur nú til að hefja kröftuga uppbyggingu um 100 íbúða og hefur það bæði farið í aðalskipulags- og deiliskipulagsferli. Slík uppbygging mun skila bæjarfélaginu tekjum, en rétt er að ítreka það að bæjarfélaginu er fullkunnugt um skyldur sínar þegar kemur að nauðsynlegum gatnagerðum á svæðinu.“

Hafnar gífuryrðum

Óli Örn Eiríksson, fulltrúi Viðreisnar svaraði svo bókun meirihlutans:

„Fulltrúi Viðreisnar í skipulags og byggingarráði hafnar þeim gífuryrðum sem hér hafa verið látin fljóta. Fulltrúar Viðreisnar í bæjarstjórn, bæjarráði og skipulags- og byggingarráði hafa stutt þetta verkefni í gegnum allt skipulagsferlið og munu gera það áfram.
Fulltrúum meirihlutans er bent á að lesa aftur bókun Viðreisnar þar sem skýrt koma fram áhyggjur af því að vinnubrögð við samningagerð á sínum tíma gætu tafið uppbyggingarferlið sem er framundan. Ekkert í bókun meirihlutaflokkanna svarar þeim ábendingum.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2