fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirBæjarstjórn samþykkti aðgerðaráætlun í 11 liðum

Bæjarstjórn samþykkti aðgerðaráætlun í 11 liðum

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti einróma í dag aðgerðaáætlun til þess að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins. Áætlunin er í 11 liðum þar sem heilsa og velferð íbúa og starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar er sett í forgang, samhliða því sem brugðist er við efnahagslegum áhrifum faraldursins á íbúa, félög og fyrirtæki, auk sveitarfélagsins sjálfs skv. tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Í þessum tillögum eru einnig aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar, m.a. að leiðrétta leikskólagjöld og gjöld fyrir frístundaheimili til samræmis við notkun.

Þá hefur verið kynnt fjölgun gjalddaga fasteignaskatta og -gjalda um einn sem lækkar mánaðarlegt gjald um 12,5% en heildarupphæð verður sú sama.

Gildistími árskorta á sundstaði og í bókasafn framlengist sem nemur lokunartíma en aðrar tillögur hafa ekki verið fullmótaðar og á útfærsla á þeim að liggja fyrir  sem allra fyrst en eigi síðar en 15. apríl og 1. maí.

Aðgerðaáætlun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vegna COVID-19 faraldursins

Í greinargerð með tillögunum sem samþykktar voru segir að til að bregðast við efnahagslegu áhrifum COVID-19 faraldursins á íbúa, félög og fyrirtæki, auk sveitarfélagsins sjálfs, séu eftirfarandi aðgerðir lagðar fram til afgreiðslu í bæjarstjórn. Lögð er áhersla á að þetta séu fyrstu aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar sem ætlað er að tryggja rekstur bæjarfélagsins og koma til móts við atvinnulíf og íbúa sem þurfa að standa af sér afleiðingar faraldursins á afkomu sína. Þá segir aðgerðir þessar miði einnig að því að lágmarka þá niðursveiflu sem óhjákvæmileg er og standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins. Reynist þörf á frekari aðgerðum sé ekkert því til fyrirstöðu að áætlun þessi verði tekin til endurskoðunar.

Fyrstu aðgerðir:

1.      Aðlögun gjalda í leik- og grunnskólum

Í þeim tilvikum sem þjónusta leik- og grunnskóla fellur niður eða skerðist vegna verkfalls, samkomubanns, veikinda eða sóttkvíar starfsmanna eða af öðrum sambærilegum ástæðum verða gjöld fyrir viðkomandi þjónustu leiðrétt í samræmi við hlutfall skerðingarinnar.

Í þeim tilvikum sem börn geta ekki nýtt sér þjónustu vegna sóttkvíar eða veikinda verða gjöld leiðrétt hlutfallslega. Ef foreldrar kjósa að nýta sér ekki þjónustu, t.a.m. með vísan til tilmæla yfirvalda um að foreldrar og forráðamenn haldi börnum sínum heima ef kostur er á hið sama við. Ofangreint nær til þjónustugjalda leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.

Ákvörðunin er tímabundin og gildir til loka maí. Endurskoðun fer fram að teknu tilliti til aðstæðna og verður fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí n.k.

– Framangreind tillaga var samþykkt í bæjarráði 26. mars 2020.

2.   Frestun gjalddaga fasteignaskatts og fasteignagjalda á íbúða- og atvinnuhúsnæði

Gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins 2020 er fjölgað til að létta mánaðarlega greiðslubyrði íbúa og atvinnulífs. Eftirstöðvum ógjaldfallinna fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins fyrir íbúða- og atvinnuhúsnæði verður dreift á mánuðina apríl/maí til desember. Þetta er gert til þess að létta undir með þeim sem nú þegar hafa fundið fyrir eða munu finna fyrir tekjufalli vegna áhrifa faraldursins.

Eigendur atvinnuhúsnæðis sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi gefst jafnframt færi á að sækja um frestun allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta og fasteignagjalda sem færast þá aftur á fyrstu mánuði ársins 2021. Með verulegu tekjutapi er átt við að minnsta kosti 25% tekjufalli milli sömu mánaða á árunum 2019 og 2020.

–      Bæjarstjóra falið að ganga frá nánari útfærslu og birta á heimasíðu bæjarins.

3.   Aukið aðhald í rekstri

Bæjarstjórn vísar því til stoðsviða bæjarins að leggja fram tillögur sem miði að því að lækka rekstrarkostnað. Horft verði sérstaklega til þeirrar þjónustu sem ekki er lögbundin en um leið lögð áhersla á að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Tillögur verði lagðar fram í viðkomandi ráðum fyrir 1. maí nk.

4.   Sala eigna sem ekki tengjast grunnstoðum bæjarins

Bæjarstjórn óskar eftir því að umhverfis- og framkvæmdaráð endurskoði lista frá árinu 2016 yfir eignir sem hægt er að selja fáist ásættanlegt verð fyrir. Hverri eign og tillögu skal fylgja umsögn.

Óskað er eftir því að þessari vinnu verði lokið 15. apríl.

5.   Lántaka vegna fjárhagslegra áhrifa á sjóðsstreymi, áætlað tekjufall, frestun gjalddaga ofl.

Bæjarráð samþykkti 26. mars 2020 heimild til lántöku að fjárhæð allt að 1.000 milljóna króna. Fjármögnun er ætlað að tryggja eðlilegt sjóðsstreymi í rekstri bæjarins á meðan yfirstandandi óvissuástand ríkir og draga úr áhrifum áætlaðs tekjufalls og frestuðum gjalddögum tekjustofna.

6.      Aukin áhersla á að hraða skipulagsvinnu á framtíðaruppbyggingarsvæðum

Bæjarstjórn vísar því til umhverfis- og skipulagsþjónustu að setja í forgang skipulagsvinnu sem miði að því að úthluta fleiri lóðum sveitarfélagsins og að framkvæmdir á þéttingarreitum geti hafist sem allra fyrst.

7.      Framkvæmdaáætlun – áhersla á viðhaldsframkvæmdir og uppbyggingu innviða

Bæjarstjórn óskar eftir því að umhverfis- og framkvæmdaráð endurskoði framkvæmda- og fjárfestingaráætlanir og leggi til, í samráði við fjármálasvið bæjarins, hvaða framkvæmdum hægt er að flýta. Sérstaklega verði horft til mögulegra samstarfsverkefna við ríkið í fjárfestingum innviða, en í viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 er kveðið á um að hraða fjárfestingarverkefnum sem nýtast samfélaginu til framtíðar.

Sérstaklega verði litið til endurgerðar hjúkrunarrýma á gamla Sólvangi vegna þessa, þar sem hönnun er tilbúin og hægt að hefja framkvæmdir strax.

Óskað er eftir að endurskoðun og tillögur liggi fyrir í síðasta lagi 15. apríl.

8.   Áhrif á íþrótta- og tómstundastarf og leigu lögaðila hjá bæjarfélaginu

Bæjarstjórn felur fjármálasviði Hafnarfjarðarbæjar að greina möguleg áhrif faraldursins á rekstur íþrótta- og tómstundafélaga bæjarins og endurskoða samningsbundnar greiðslur til þeirra. Markmiðið verði að verja rekstur þeirra og starfsemi.

Einnig verði mótaðar reglur um frestun á leigugreiðslum lögaðila í húsnæði bæjarins sem taki mið af umsóknum þar um.

9.      Menning, listir og skapandi greinar

Bæjarstjórn felur þjónustu- og þróunarsviði að leggja fram hugmyndir sem eflt geti viðspyrnu menningar- og listalífs bæjarins og aukið viðburðahald um leið og aðstæður leyfa.

Horft verði einnig til barnamenningar og verkefna sem lúta að snjallvæðingu á þjónustu sveitarfélagsins annars vegar og að tengja saman lýðheilsu og menningu hins vegar.

Tillögur verði lagðar fram ekki síðar en 15. apríl.

10.  Nýsköpun ungs fólks og frumkvöðla

Bæjarstjórn felur sviðum bæjarins að taka saman lista yfir afmörkuð verkefni sem einkum megi bjóða hafnfirsku námsfólki og frumkvöðlum til vinnslu í tímabundnum störfum eða verktöku. Horft verði sérstaklega til nýrra og nýstárlegra verkefna þar sem nýta megi menntun og færni þátttakenda til nýjunga og umbóta í starfsemi bæjarins, s.s. á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála, íþróttamála og heilsueflandi samfélags. Samstarfs verði leitað við aðra aðila, s.s. framhaldsskóla, háskóla og Nýsköpunarsjóð námsmanna, eftir því sem tilefni gefast til.

Listi verkefna liggi fyrir 15. apríl, með stuttri lýsingu og tilgreindum umsjónarmanni með hverju verkefni. Verkefnin verði kynnt og kallað eftir umsækjendum til vinnslu þeirra.

11.  Sund- og bókasafnskort framlengd

Gildistími árskorta á sundstaði bæjarins og í bókasafn Hafnarfjarðar taki mið af skertum opnunartíma og gildistími verði framlengdur sem því nemur.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2