fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkEinkavæðing í skjóli heimsfaraldurs

Einkavæðing í skjóli heimsfaraldurs

Adda María Jóhannsdóttir skrifar

Á fundi bæjarráðs síðasta vetrardag lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fram og samþykktu tillögu um að hafinn yrði undirbúningur að sölu á hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum. Skammur aðdragandi var að þessu ráðabruggi og engin opinber umræða hefur farið fram. Það er dálagleg sumarkveðja til Hafnfirðinga sem með þessu selja frá sér þann hlut sem eftir er af Rafveitu Hafnarfjarðar – sem var sameinuð Hitaveitu Suðurnesja árið 2001. Samfylkingin leggst gegn þessum áformum.

Einkavæðing á grunnþjónustu

Þrátt fyrir þær efnahagslegu áskoranir sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir nú er sala á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu í hendur einkaaðila ekki rétta leiðin til að standa undir auknum útgjöldum.

Lögum samkvæmt eiga HS Veitur ávallt að vera í meirihlutaeign opinberra aðila og því má telja það óráð að takmarka aðkomu þeirra að rekstrinum enn frekar frá því sem gert var við sölu Reykjanesbæjar á 15% hlut sínum í árslok árið 2013 þannig að ríflega þriðjungur er nú í eigu einkaaðila. Með sölu á hlut Hafnarfjarðarbæjar væri þar með helmingur kominn í eigu einkaaðila.

Engin umræða og tímasetningin sérstök

Tillagan kom fram með stuttum fyrirvara og engin opinber umræða um hana farið fram. Tímasetningin er einnig sérstök í ljósi aðstæðna. Starfsfólk bæjarins hefur setið hörðum höndum við að leita lausna til að bregðast við ástandinu vegna kórónaveirufaraldursins m.a. með ýmsum aðhaldsaðgerðum. Þá er einnig óljóst hvort og þá hvernig ríkisstjórnin muni styðja frekar við sveitarfélögin vegna aðstæðna en eins og Samfylkingin hefur bent á er aðkoma ríkisins gagnvart sveitarfélögunum afar brýn svo verja megi nærþjónustuna. Það sýnir í það minnsta ekki mikla tiltrú á flokksfélögum meirihlutans í þinginu að leggja tillögu sem þessa fram nú. Einnig má draga í efa hvort sala á eignarhlut bæjarins í HS Veitum sé fjárhagslega betri kostur en lántaka miðað við núverandi markaðskjör og framreiknaðar arðgreiðslur til lengri tíma.

Samfylkingin styður ekki einkavæðingaráform

Mikilvægt er að sveitarfélög hafi skýra aðkomu að fyrirtækjum í almannaþjónustu og þess vegna er hlutur Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum samfélagslega mikilvægur. Með samþykkt meirihluta bæjarráðs hefur Framsóknarflokkurinn ákveðið að styðja við einkavæðingaráform Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin í Hafnarfirði leggst alfarið gegn þeim áformum.

Adda María Jóhannsdóttir,
bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2