fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkEinkavæðing Rafveitu Hafnarfjarðar

Einkavæðing Rafveitu Hafnarfjarðar

Adda María Jóhannsdóttir skrifar

Í ljósi umræðna sem orðið hafa í kjölfar þeirrar ákvörðunar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að setja hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS Veitum í söluferli er mikilvægt að rifja upp söguna.

Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks selur hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja

Upphafið má rekja til þess þegar ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðismanna ákvað, í aðdraganda kosninga, árið 2007 að selja 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf., en heimila ekki öðrum opinberum orkufyrirtækjum að koma að kaupunum líkt og hafði gerst með sölu í Landsvirkjun á hlut Akureyrar. Samþjöppun og hagræðing væri ekki möguleg. Einkafyrirtækið Geysir Green, sem fór svo margfalt á hausinn, keypti, en Hafnarfjörður og Grindavík nýttu forkaupsrétt sinn á hlutnum og Reykjanesbær kom inn á elleftu stundu.

Einhugur var í bæjarstjórn Grindavíkur og Framsóknarmenn þar sammála um að tryggja áfram opinbera eign. Niðurstaðan varð síðan til þess að hluthafasamkomulag náðist um að Orkuveita Reykjavíkur kæmist yfir hlut Hafnarfjarðar og Grindavíkur með það fyrir augum að sameina Orkuveituna og Hitaveitu Suðurnesja.

Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði klofnir í afstöðu

Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði voru klofnir í afstöðu sinni, sumir vildu selja til Geysis en aðrir ekki. Framsóknarflokkurinn í Hafnarfirði átti ekki hlut að máli, enda ekki með fulltrúa í bæjarstjórn á þeim tíma. Um haustið kom REI málið fræga upp í Reykjavík. Hafnarfjörður bakkaði þá út úr sölunni á sínum hlut til Orkuveitunnar vegna REI einkavæðingarinnar, líkt og Grindavík, og stofnað var félagið Suðurlindir ohf með aðkomu Vogamanna.

REI málið felldi meirihlutann í Reykjavík er Björn Ingi Hrafnsson oddviti Framsóknarflokksins sleit meirihlutasamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Einkavæðing í orkugeiranum og brask varð þessum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks því að falli og kannski víti til að varast að Framsóknarmenn séu í taumhaldi Sjálfstæðismanna hvað einkavæðingu varðar.

Samfylkingin í ríkisstjórn og sviptingar í borgarstjórn

Með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Samfylkingar í orkumálum var lagt upp með að skipta orkufyrirtækjum landsins upp í fyrirtæki sem gætu verið í orkusamkeppni annars vegar og hins vegar í dreifingu, það gerðist m.a. með RARIK og Hitaveitu Suðurnesja að fyrirtækjunum var skipt upp.

Niðurstaðan varð því sú að Hafnarfjörður seldi þann hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja sem við þekkjum í dag undir nafninu HS Orka, til Orkuveitu Reykjavíkur sem er opinbert fyrirtæki, en hélt eftir veituhlutanum sem varð að opinbera fyrirtækinu HS Veitur. Framsóknarmenn í Reykjavík höfðu stefnt að því að sameina fleiri opinber orkufyrirtæki en það varð ekki raunin enda sleit F-listinn meirihlutasamstarfi í borginni þannig að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin fóru úr meirihluta. Við það skiptust vindar einu sinni enn í borginni og Orkuveitan framseldi hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Magma Energy sem hafði áður keypt hluti Geysis Green. Hafnarfjörður náði þó í samkomulaginu að halda eftir hlutnum í HS veitum sem Hafnarfjarðabær hefur átt síðan.

Breytt afstaða Framsóknarflokksins – Rafveita Hafnarfjarðar einkavædd

Niðurstaðan er því í raun sú að Framsóknarflokkurinn í Hafnarfirði hefur sama tækifæri og hann hafði í Reykjavík 2007 þegar oddviti Framsóknarmanna í borginni stóð við grunnforsendur Framsóknarflokksins um að veitufyrirtækin ættu að vera í eigu hins opinbera, en samkeppnishlutinn gæti verið á markaði. Um það hafa Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin verið sammála um áratugabil. Nú, 13 árum seinna, virðist Framsóknarflokkurinn ætla að standa við bakið á þeim hluta Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði sem vill selja það sem eftir er af Hitaveitu Suðurnesja.

Framsóknarmenn í Hafnarfirði standa því raunverulega frammi fyrir því að það verði Framsóknarflokkurinn sem selur að lokum Rafveitu Hafnarfjarðar í heilu lagi, því hlutur bæjarins í HS Veitum stendur vel undir eignarhlut gömlu góðu Rafveitunnar sem dreifði rafmagni, en framleiddi ekki.

Samfylkingin hvetur Framsóknarflokkinn til þess að endurmeta stöðuna og draga málið til baka. Með samstöðu í bæjarstjórn mun okkur Hafnfirðingum ganga betur næstu vikur og mánuði.

Adda María Jóhannsdóttir,
bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2