Þær voru kaldar kveðjurnar sem meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sendi notendum og starfsfólki notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) í aðdraganda 1. maí – alþjóðlegs baráttudags launafólks. Á síðasta bæjarstjórnarfundi felldu fulltrúar meirihlutans tillögu okkar í Samfylkingunni um að frysta laun kjörinna fulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ a.m.k. út þetta ár í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19. Á sama tíma neita þessir sömu fulltrúar meirihlutans að auka fjármagnið í NPA samningum bæjarins þannig að hægt sé að standa við kjarasamningsbundnar hækkanir lífskjarasamninganna sem undirritaðir voru fyrir ári síðan.
Talað fyrir daufum eyru meirihlutans
Verkin sýna merkin og nú liggur forgangsröðun meirihlutans fyrir. Bæjarfulltrúar eiga greinilega meiri rétt á launahækkunum en aðstoðarfólk NPA notenda að mati fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði. Notendur NPA í Hafnarfirði og aðstoðarfólk þeirra mun ekki sætta sig við að vera skilið eftir á meðan bæjarfulltrúar fá ríflegar launahækkanir. Þær hækkanir koma í kjölfar hækkunar á þingfararkaupi sem sömu flokkar auk annarra á þingi neituðu einnig að yrði fryst fyrir skemmstu. Samfylkingin mun áfram veita fötluðu fólki liðsinni sitt við að ná fram þessum eðlilegu og réttmætu leiðréttingum þó talað verði fyrir daufum meirihlutaeyrum.
Hafnarfjörður situr eftir
Frá því lífskjarasamningarnir voru undirritaðir fyrir ári síðan hafa notendur NPA og NPA miðstöðin barist fyrir því að fjármögnun samninganna tryggði það að notendur gætu greitt starfsfólki sínu laun í samræmi við lífskjarasamningana. Í september sl. steig Reykjavík það skref og hækkaði sína viðmiðunartölu í samræmi við hækkanir lífskjarasamninganna. Önnur sveitarfélög hafa einnig hækkað sína taxta en Hafnarfjörður hefur setið eftir. Það þýðir að margir notendur hafa lent í vandræðum með að standa við kjarasamningsbundnar skuldbindingar sínar og dæmi eru um að notendur hafi þurft að greiða mismuninn úr eigin vasa. Við þessari ömurlegu stöðu verður einfaldlega að bregðast strax.
Hagsmunir fatlaðs fólks settir í annað sætið
Samfylkingin leggur áherslu á að öll velferðarþjónusta grundvallist á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers og eins enda stöndum við heils hugar við bakið á NPA. Sama verður því miður ekki sagt um meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem nú hefur sýnt okkur sína forgangsröðun þar sem hagsmunir fatlaðs fólks og starfsfólks þess koma á eftir hagsmunum kjörinna fulltrúa. Eftir síðasta bæjarstjórnarfund er því staðan 1-0 bæjarfulltrúum í vil gegn fötluðu fólki, notendum NPA og aðstoðarfólki þeirra.
Árni Rúnar Þorvaldsson,
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.