fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirMikið umstang við færslu á einu mastri um 26 metra

Mikið umstang við færslu á einu mastri um 26 metra

Undirbúningur að lagningu Ásvallabrautar

Framkvæmdir fara brátt að hefjast við lagningu Ásvallabrautar, frá Skarðshlíð og yfir á Kaldárselsveg. Til þess að koma veginum fyrir þurfti að færa eitt mastur í Hnoðraholtslínu, 132 þúsund volta háspennulínu sem liggur á milli Hnoðraholts í Garðabæ og Hamraness. Mastrið er á Bleikasteinshálsi, rétt ofan við Hlíðarþúfur þar sem vegurinn sveigir til norðurs og tengist nýja hringtorginu við Flóttamannaveginn/Elliðavatnsveg.

Aðeins þurfti að færa mastrið um 26 metra. Möstrin í línunni eru tveggja fóta ef svo má að orði komast og stöguð með stálvírum. Voru grafnar niður tvær nýjar undirstöður og festur fyrir stögin áður en hægt var að hefjast handa við færsluna. Þá var spenna tekin af línunni og hún losuð af mastrinu og það losað og lagt niður. Lá línan þá slök yfir tvö mastursbil og var sums staðar aðeins um 50 cm yfir jörðu. Upp úr hádegi í dag var mastrið híft upp á ný og því komið fyrir á nýju undirstöðurnar. Stögunum var komið fyrir og þau strekkt vel áður en hægt var að hífa línurnar á sinn stað en þær hanga í öflugum einangrurum á möstrunum.

Unnu starfsmenn Landsnets fumlaust að þessu í dag og greinilega vanir menn.

Við hlið Hnoðraholtslínu er Hamraneslína I og II á mun hærri möstrum en Hnoðraholtslína. Vonir standa til að hún víki þegar leyfi fæst fyrir lagningu Lyklafellslínu sem á að liggja meðfram núverandi línum norðan Helgafells.

Ljósmyndari Fjarðarfrétta fylgdist með og má sjá myndirnar hér fyrir neðan.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2