fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimÁ döfinniÁtta tónleikar og námskeið á Sönghátíð í Hafnarborg

Átta tónleikar og námskeið á Sönghátíð í Hafnarborg

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin í ár þrátt fyrir kófið og það sem meira er, einstakt úrval tónlistarmanna mætir til leiks með fjölbreytta dagskrá. Hefst hún 2. júlí og stendur til 12. júlí.

„Samkenndin sem við höfum öll fundið svo sterkt fyrir undanfarið verður þema hátíðarinnar í ár,“ segir Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir annar listrænu stjórnenda hátíðarinnar. „Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og að setja okkur í spor annarra“.

Átta tónleikar verða í boði með söngvurum, sönghópum og hljóðfæraleikurum sem flytja íslenska og erlenda tónlist frá endurreisnartímabilinu til okkar daga.

Allir tónleikarnir fara fram í aðalsal Hafnarborgar og miðasala fer fram á tix.is

Á hátíðinni er einnig boðið upp á ýmis námskeið; master class með Kristni Sigmundssyni, söngnámskeið fyrir byrjendur með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og tónlistar- og myndlistarnámskeið fyrir 6-12 ára krakka, sem svo taka þátt í Fjölskyldutónleikum. Fyrir minnstu börnin eru í boði Krílasöngur fyrir 6-18 mánaða með foreldrum, sem Svafa Þórhallsdóttir leiðir og tónlistarsmiðja fyrir 3-5 ára með foreldrum, í umsjón Valgerðar Jónsdóttur.

Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.

Sönghátíð í Hafnarborg er sjálfstæð hátíð, sem er haldin í samstarfi við Hafnarborg, og nýtur stuðnings Hafnarfjarðarbæjar, Tónlistarsjóðs og Landsbankans.

Tónleikar

Fimmtudagur 2. júlí kl. 20

Sólin heim úr suðri snýr. Kammerkórinn Hljómeyki flytur íslenskar kórperlur. Stjórnandi er Þorvaldur Örn Davíðsson.

Föstudagur 3. júlí kl. 17

Fjölskyldutónleikar. Vala Guðna söng- og leikkona, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari flytja sönglög frá ólíkum löndum. Ókeypis aðgangur.

Laugardagur 4. júlí kl. 17

Óperugala. Dísella Lárusdóttir sópran, Bjarni Thor Kristinsson bassi og Antónía Hevesi píanóleikari flytja aríur og dúetta úr ástkærum óperum.

Sunnudagur 5. júlí kl. 17

Samúðarsöngvar. Eyjólfur Eyjólfsson tenór, barokkflauta og langspil, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui, gítar, flytja sönglög frá endurreisnar- og barokktímanum.

Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Fancisco Javier Jáuregui gítarleikari.

Þriðjudagur 7. júlí kl. 20

Aldasöngur og íslenskar gersemar. Sönghópurinn Cantoque Ensemble flytur Aldasöng eftir Jón Nordal, sem einnig speglast í nýjum verkum eftir Steinar Loga Helgason og Hafstein Þórólfsson. Á efnisskránni eru einnig ástsæl íslensk kórlög. Stjórnandi er Steinar Logi Helgason.

Fimmtudagur 9. júlí kl. 20

Master class tónleikar. Nemendur á master class námskeiði Kristins Sigmundssonar flytja sönglög og óperuaríur. Hrönn Þráinsdóttir leikur með á píanó.

Laugardagur 11. júlí kl. 17

The Modern Romantic. Stuart Skelton tenór og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari flytja ljóðatónlist sem brúar bilið á milli rómantíska tímabilsins og 20. aldarinnar.

Sunnudagur 12. júlí kl. 17

Jón Ásgeirsson – heiðurstónleikar. Kristinn Sigmundsson bassi, Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Hrólfur Sæmundsson baritón, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran, Gunnlaugur Bjarnason, baritón, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari flytja söngtónlist eftir Jón Ásgeirsson.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2