Í tilefni Hönnunarmars, sem fer fram dagana 24.–28. júní verður boðið upp á sérstaka dagskrá í Hafnarborg í tengslum við sýninguna efni:við, sem opnaði í safninu í upphafi sumars. Á sýningu Hafnarborgar í ár er viður sem efni í forgrunni. Hugmyndin var að tefla saman hönnuðum og listafólki með mismunandi bakgrunn og ólíkar áherslur í myndmáli, sem eiga það þó sammerkt að vinna með og kljást við þetta fallega efni, í einni eða annarri mynd, þegar þau framkalla hugmyndir sínar. Sjónum er jafnframt beint að mörkum listgreina sem hafa orðið sífellt óljósari á síðustu árum og eru jafnvel að einhverju marki hætt að skipta máli.
Hádegisleiðsögn með sýningarstjóra 24-26. júní kl. 12
Á virkum dögum verður boðið upp á stutta hádegisleiðsögn um sýninguna efni:við, á meðan Hönnunarmars stendur yfir. Unnur Mjöll S. Leifsdóttir, sýningarstjóri, tekur á móti gestum og segir þeim frá sýningunni, völdum verkum og fleiru. Leiðsögnin hefst tímanlega kl. 12 og varir í tæpan hálftíma.
Kvöldopnun 25. júní kl. 1-21
Kvöldopnun verður í safninu fimmtudaginn 25. júní, frá kl. 17–21, þar sem gestum gefst tækifæri til að skoða sýninguna utan hefðbundins opnunartíma.
Sýnendaspjall – Björn Steinar Blumenstein og Unndór Egill Jónsson 27. júní kl. 14
Um helgina munu eiga sér stað spjall á milli nokkurra þátttakenda sýningarinnar, þar sem gestir geta fengið innsýn í ferli hönnunar og listsköpunar. Í fyrra sýnendaspjalli, laugardaginn 27. júní, mætast vöruhönnuðurinn Björn Steinar Blumenstein og myndlistarmaðurinn Unndór Egill Jónsson. Þá verður meðal annars rætt hvað er líkt og ólíkt með nálgun hönnuða og myndlistarmanna við sama efni:við.
Sýnendaspjall – Agustav og Sindri Leifsson 28. júní kl. 14
Í síðara sýnendaspjalli helgarinnar, sunnudaginn 28. júní, mætast hönnunarteymið Agustav, skipað þeim Ágústu Magnúsdóttur og Gustav Jóhannssyni, og myndlistarmaðurinn Sindri Leifsson. Rætt verður um mismunandi sjónarmið og þær svipuðu áskoranir sem felast í því að eiga við sama efni:við.
Ókeypis aðgangur er að öllum viðburðum.