fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSamningur við Kviku banka tilbúinn áður en bæjarráðsfulltrúar fengu vitnesku um áformaða...

Samningur við Kviku banka tilbúinn áður en bæjarráðsfulltrúar fengu vitnesku um áformaða sölu á hlut í HS veitum – uppfært

Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi og fulltrúi í bæjarráði, hefur sent póst á bæjarstjóra og fulltrúa í bæjarráði Hafnarfjarðar þar sem hún segir að sér hafi borist upplýsingar um að samningaviðræður um sölu á hlut bæjarins í HS Veitum við Kviku banka hafi hafist þó nokkru áður en ákvörðun var tekin um að hefja söluferli á hlutnum á bæjarráðsfundi þann 22. apríl og einnig áður en málið var fyrst nefnt við bæjarráðsfulltrúa á undirbúningsfundi þann 20. apríl.

Þá segir hún að ljóst sé að samningurinn við Kviku banka hafi verið tilbúinn áður en bæjarráðsfulltrúar fengu nokkrar upplýsingar um málið, eða um miðjan apríl.

Ekki voru því öll gögn sem tengjast samningagerðinni lögð fram sem hluti af svörum við fyrirspurnum fyrirspurnum hennar um málið sem hún lagði fram í bæjarráði 20. maí sl.

68 síður af gögnum sem sýna hið sanna í málinu

Óskar Steinn Jón­ínu­son Ómarsson

Gögnin sem Adda María vísar til eru gögn sem Óskar Steinn Ómarsson fékk um samskipti Hafnarfjarðarbæjar við Kviku banka og samskipti tengd því.

Skv. þeim gögnum má sjá að drög að samningi lágu fyrir 14. apríl. Fulltrúar minnihlutans í bæjarráði heyrðu fyrst af málinu 20. apríl, en þá aðeins þannig að hugmyndin hafi komið upp. Tveimur dögum seinna, á fundi bæjarráðs 22. apríl, er svo tillaga lögð fram um að hefja undirbúning að sölu. Gögnin sýna að sá undirbúningur var hafinn mánuði fyrir fundinn.

Gögnin innihalda tölvupóstsamkipti, samninginn og fl. og má sjá hér.

Bæjarstjóri vísar á bug að samningur hafi verið gerður áður en söluferlið var samþykkt í bæjarráði

Bæjarstjóri vísar því á bug að samningur hafi verið gerður við Kviku áður en söluferlið var samþykkt í bæjarráði. Þetta kemur fram í bókun Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í bæjarráði sl. fimmtudag.

Síðar segir í bókuninni: „Ákvörðun um að fara í söluferli og að semja við Kviku var tekin að vel íhuguðu máli að undangengnum samskiptum aðila þar að lútandi, en fyrirtækið hafði séð um sölu á hlut í HS-veitum nokkrum mánuðum áður og þekkti því félagið afar vel og allan grundvöll fyrir hugsanlegu söluferli. Endanleg ákvörðun um að fara í söluferlið var síðan tekin í bæjarráði, eftir að hafa kannað grundvöll þess að fara í sölu á þessum tímapunkti, lagt mat á getu Kviku til þess að ná góðri niðurstöðu fyrir Hafnarfjörð og að samið væri þannig að tryggt væri að áhætta bæjarins væri lágmörkuð, m.a. með því að bærinn gæti dregið sig út úr ferlinu án kostnaðar. Það hefði verið mun ábyrgðarlausara að leggja það fyrir bæjarráð að samþykkja að fara í söluferli áður en fyrir lægi að grundvöllur væri fyrir að fara í slíka vegferð. Samantekt á tölvupóstsamskiptum starfsmanna bæjarins og fulltrúa Kviku, vegna undirbúningsvinnu málsins, voru einfaldlega ekki tilbúin á þeim tíma þegar önnur svör við fyrirspurninni voru lögð fram.”

 

Adda María Jóhannsdóttir

Bréf Öddu Maríu

Sæl öll,

Í dag fékk ég upplýsingar sem gefa tilefni til að óska eftir skýrari svörum við fyrirspurn sem ég lagði fram í bæjarráði þann 20. maí sl. Nánar tiltekið er það fyrirspurn um það hvenær ákvörðun var tekin um að fela Kviku banka að selja eignarhlut bæjarins í HS Veitum.
Svör við fyrirspurnum mínum voru lögð fram á fundi bæjarráðs þann 4. júní sl. Þessari spurningu var ekki svarað en nokkuð ítarlega var farið yfir það hvers vegna gengið var til samninga við Kviku banka frekar en aðra.

Í fyrirspurn minni var einnig óskað eftir öllum gögnum sem tengjast samningagerðinni og skýrt geta tilurð þess að samið var við Kviku.

Þær upplýsingar sem mér hafa borist sýna að samningaviðræður um sölu á hlut bæjarins í HS Veitum við Kviku banka hófust þó nokkru áður en ákvörðun var tekin um að hefja söluferli á hlutnum á bæjarráðsfundi þann 22. apríl og einnig áður en málið var fyrst nefnt við bæjarráðsfulltrúa á undirbúningsfundi þann 20. apríl. Þá er einnig ljóst að samningurinn við Kviku banka var tilbúinn áður en bæjarráðsfulltrúar fengu nokkrar upplýsingar um málið, eða um miðjan apríl.

Það er því ljóst að öll gögn sem tengjast samningagerðinni voru EKKI lögð fram sem hluti af svörum við mínum fyrirspurnum (skjal dags. 3. júní sl.).
Við þetta geri ég alvarlegar athugasemdir.

Í ljósi þessa fer ég fram á að öll samskipti við Kviku banka verði lögð fram á fundinum á morgun. Sú samantekt hefur nú þegar verið gerð (skjal merkt HS-veitur-samskipti-o.fl.-upplýsingabeiðni) og ætti því að vera einfalt mál leggja það fram.

Þá fer ég einnig fram á skýringar á því hvers vegna þetta kom ekki fram í svörum við fyrirspurnum mínum.

Sömuleiðis fer ég fram á skýr svör varðandi það hvenær hugmyndin um sölu á hlut bæjarins í HS Veitum kom fyrst fram og hvenær nákvæmlega þreifingar við Kviku banka hófust?

Adda María Jóhannsdóttir
fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2