fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimÁ döfinniTvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg á laugardaginn

Tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg á laugardaginn

Á laugardaginn verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg. Í aðalsal er það haustsýningin Villiblómið. Í Sverrissal er það svo sýning Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs en Sverrissalur hefur verið lokaður síðan í byrjun vors vegna flutninga á safnkosti Hafnarborgar í nýja geymsluaðstöðu.

Villiblómið

Villiblómið byggir á samstarfi alþjóðlegra listamanna og sýningarstjóra frá Kanada og Íslandi. Þar beina listamennirnir sjónum sínum að plönturíkinu og margræðum birtingarmyndum blóma á norðurslóðum. Sýningarsalurinn umbreytist í engi fagurra blóma, sem maðurinn hefur skapað í ólíkum myndum og minna á tengingu okkar við umhverfið. Þar blómstra hugmyndirnar og upp spretta ýmsar spurningar um stöðu okkar í heimi sem tekur stöðugum breytingum. Þá verður villiblómið jafnt tákn um mátt og mýkt – hið hverfula og smáa jafnt sem hið óstöðvandi afl náttúrunnar

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Arna Óttarsdóttir, Asinnajaq, Eggert Pétursson, Emily Critch, Jón Gunnar Árnason, Justine McGrath, Katrina Jane, Leisure, Nína Óskarsdóttir, Rúna Þorkelsdóttir og Thomas Pausz. Villiblómið er fyrsta samstarfsverkefni sýningarstjóranna Becky Forsythe og Penelope Smart en samstarf þeirra byggir á nýju og kraftmiklu samtali um náttúru, vald og kvenleika. Þær koma báðar frá Kanada en þær kynntust fyrir nokkrum árum í Banff Centre for the Arts and Creativity.

Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs

Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs beinir athygli okkar að þætti borgarhljóðvistar í upplifun okkar af stað og tíma. Davíð Brynjar Franzson hefur unnið þrívítt hljóðumhverfi úr hljóðritunum frá fjórum mismunandi borgum: Los Angeles, New York, Malmö og Reykjavík. Davíð hefur unnið í samstarfi við listamenn frá borgunum fjórum að upptökunum en hljómi borganna er att saman við hljóðfæraleik flytjenda, sem ferðast hægfara um rýmið, bregst við og dregur fram litbrigði og augnablik í hljóðvistinni – eins konar lystigarði hljóðs, sem gestir geta kannað á eigin forsendum jafnt í tíma og rúmi.

Á sýningartímabilinu verða einnig haldnir viðburðir þar sem samstarfsaðilar Davíðs koma fram og virkja sýninguna með hljóðfæraleik. Samstarfsaðilar hans eru Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, Júlía Mogensen, sellóleikari, Matt Barbier, básúnuleikari, og Russell Greenberg, slagverksleikari. Sýningin er sett upp innan tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðana, sem tileinkuð er samtímatónlist.

Sýningarnar verða opnar samkvæmt hefðbundnum opnunartíma safnsins frá og með laugardeginum 29. ágúst. Ráðgert er að sýningarnar standi til 25. október, með fyrirvara um breytingar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2