Á þriðjudaginn kl. 12 mun Gissur Páll Gissurarson, tenór, koma fram á fyrstu hádegistónleikum haustsins í Hafnarborg, ásamt píanóleikaranum Antoníu Hevesi, listrænum stjórnenda hádegistónleikaraðar Hafnarborgar.
Dagskrá hádegistónleikanna féll að mestu leyti niður í vor vegna kórónuveiruveirunnar. Enn gilda fjöldatakmarkanir og því verður takmarkað sætaframboð á tónleikanna í samræmi við viðmið heilbrigðisyfirvalda, aðeins 50 sæti verða í boði.
Á tónleikunum, sem bera yfirskriftina Alls konar ást, flytur Gissur aríur úr óperum og óperettum eftir Flotow, Verdi og Lehár.
Gissur Páll Gissurarson þreytti frumraun sína aðeins ellefu ára gamall í titilhlutverkinu í söngleiknum Oliver Twist. Frá 1997 stundaði hann nám í Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Jafnhliða söngnámi söng Gissur í Kór Íslensku óperunnar og kom fram sem einsöngvari við ýmis tilefni. Hann hóf nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna árið 2001 og sótti síðan einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni. Fyrsta óperuhlutverk Gissurar á Ítalíu var sem Ruiz í óperunni Il Trovatore í Ravenna og síðan þá hefur hann tekið þátt í ýmsum uppfærslum víðs vegar um Evrópu.
Haustið 2005 kom Gissur Páll fram fyrir hönd Íslands á EXPO sýningunni í Nagoya í Japan. Árið 2006 tók Gissur Páll svo þátt í söngkeppninni Flaviano Labò og lenti í þriðja sæti af 123 keppendum. Þá um haustið hélt hann sína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi í Salnum í Kópavogi. Sama ár tók hann þátt í söngkeppni í Brescia og hreppti þar tvenn verðlaun. Gissur Páll söng sem gestasöngvari hlutverk Nemorino í uppfærslu Íslensku óperunnar á Ástardrykknum árið 2009 og var einn söngvaranna í Perluportinu vorið 2011. Þá söng hann hlutverk Rodolfo í La bohème hjá Íslensku óperunni vorið 2012 og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á hlutverkinu.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Panta þarf miða
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. 50 sæti verða í boði á tónleikanna og eru gestir beðnir um að panta miða með tölvupósti, hafnarborg@hafnarfjordur.is, eða í síma 585 5790 Aðgangur er ókeypis.