Sigurður Pétur Sigmundsson hefur verið ráðinn þjálfari millivegalengda- og langhlaupara í meistaraflokki hjá Frjálsíþróttadeild FH.
Hann er einn reyndasti og farsælasti millivegalengda- og langhlaupaþjálfari landsins og hefur þjálfað marga af bestu hlaupurum landsins á ferli sínum sem spannar yfir 20 ár.
Sigurður Pétur, sem fæddur er 1957 og keppti fyrir FH á sínum tíma, (og gerir reyndar enn) var margfaldur Íslandsmeistari og átti hann til fjölda ára Íslandsmet bæði í heilu- og hálfu maraþoni. Íslandsmetið í maraþoni setti hann árið 1985, 2,19.46 klst. en það stóð allt til ársins 2011 þegar Kári Steinn Karlsson hljóp á 2,17.12 klst.
Sigurður hefur verið með eigin hlaupahóp, Hlaupahóp Sigga P, frá árinu 1993 en hann hefur einnig þjálfað hjá Fjölni 2012-2017 og hjá Hlaupahópi Stjörnunnar frá 2012.
„Reyndar hef ég verið að þjálfa tvær stúlkur, Önnu Karen Jónsdóttur og Elínu Sóleyju Sigurbjörnsdóttur, í um þrjú og hálft ár, sem hafa svo keppt fyrir FH undanfarin tvö ár og eru nú efstar á afrekaskránni utanhúss í 1.500 m hlaupi,“ segir Sigurður í samtali við Fjarðarfréttir.
Anna Karen er Íslandsmeistari í þeirri grein utanhúss 2020 og Elín Sóley innanhúss 2020.
Mitt markmið er að byggja upp öflugan hóp millivegalengda – og langhlaupara hjá FH
„Stúlknahópurinn er þegar nokkuð sterkur en hins vegar þarf að leggja aukna áherslu á að byggja upp karlahópinn,“ segir Sigurðu. „Ég hef alltaf verið mjög árangurmiðaður þjálfari og mun leggja mikla áherslu á markvissa þjálfun í góðu samstarfi við aðra þjálfara deildarinnar.“
Aðspurður segist Sigurður líta á þetta sem mjög spennandi verkefni og sér hann fyrir sér samstarf við hlaupahóp FH, sem er einn stærsti hlaupahópur landsins og er hluti af frjálsíþróttadeildinni. Segir Sigurður að þar hafi verið unnið mjög gott starf og margir sterkir hlauparar séu í þeim hópi.