fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAtvinnulífMatarbúðin Nándin hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi plastlausa lausn

Matarbúðin Nándin hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi plastlausa lausn

Matarbúðin Nándin hlaut nýlega Bláskelina, viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi plastlausa lausn og prýðilegt fordæmi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti Kolbeini Lárusi Sigurðssyni hjá Matarbúðinni viðurkenninguna í beinni útsendingu á vef Umhverfisstofnunar.

Matarbúðin Nándin er fjölskyldufyrirtæki við Austurgötu í Hafnarfirði og í Kolaportinu í Reykjavík. Markmið fjölskyldunnar er að skapa sjálfbært matvælakerfi þar sem sett er upp hringrás fyrir gler, ásamt því að selja matvöru í niðurbrjótanlegum og moltuhæfum umbúðum. Fjölskyldan leggur áherslu á að hvetja viðskiptavini og samstarfsaðila til að vinna að plastlausum heimi með sér og um leið að vekja fólk til umhugsunar um áhrif umbúða á náttúruna og framtíðina. „Í því vandasama verkefni að setja upp plastlausa matarbúð, finna og flytja inn umbúðir, þróa ferla og pakka nánast öllum vörum, er það ómetanleg hvatning að fá opinbera viðurkenningu sem þessa“, sagði Kolbeinn Lárus. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að framtak Matarbúðarinnar Nándarinnar sé sannarlega fordæmisgefandi fyrir aðrar matvöruverslanir og framleiðendur.

Kallað var eftir tilnefningum á vordögum frá almenningi um fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða aðra sem hafa nýtt framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu. Fjögurra manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins og Plastlausum september fór yfir tilnefningarnar og valdi verðlaunahafa.

Forsvarsmenn Matarbúðarinn með ráðherra og fl.

Í úrslitahóp dómnefndar komust þrír aðilar auk Matarbúðarinnar Nándarinnar, en þeir eru Bioplastic skin, Krónan og Plastplan. Bioplastic Skin er verkefni sem snýr að hönnun umhverfisvænna umbúða úr dýrahúðum sem nota má til að pakka kjötvörum, Krónan hefur unnið markvisst að því að draga úr magni plasts sem fellur til í verslunum og auka endurvinnslu og Plastplan sérhæfir sig í plastendurvinnslu, hönnun og fræðslu.

„Það var mér sannur heiður að veita Bláskelina í dag og það er gaman að hvetja metnaðarfullt og framsækið fólk áfram í verkum sínum,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við þurfum skapandi lausnir eins og þær sem við höfum séð hér í dag, hugrekki og dugnað til þess að rífa okkur upp úr hjólförunum og stefna í átt að hringrásarhagkerfi. Náttúran og komandi kynslóðir munu þakka okkur fyrir það. Ég vona að Bláskelin eigi eftir að veita mörgum hvatningu og innblástur á komandi árum, en veiting hennar er ein af aðgerðum stjórnvalda til þess að draga úr plastnotkun í samfélaginu.“

Bláskelin var veitt í fyrsta skipti í fyrra og er viðurkenningunni ætlað að draga fram það sem vel er gert varðandi plastlausar lausnir og veita nýsköpun aukinn slagkraft.

Hér má sjá útsendingu frá afhendingunni:

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2