fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirGert ráð fyrir 2 milljarða kr. rekstrarhalla bæjarsjóðs

Gert ráð fyrir 2 milljarða kr. rekstrarhalla bæjarsjóðs

Engin umræða um sjálfa fjárhagsáætlunina við „fyrri umræðu“

Gert er ráð fyrir að rekstrarhalli Hafnarfjarðarkaupstaðar nemi 1.221 milljón króna á árinu 2021 og er þá búið að taka tillit til þess að B-hluta stofnanir skila 767 milljón kr. í rekstrarhagnað. Er rekstrarhalli A-hluta Hafnarfjarðarkaupstaðar, aðalsjóðs og eignasjóðs, 1.988 milljónir kr.

Engin umræða við fyrri umræðu?

Tillaga að fjárhagsáætlun 2021 var lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag til fyrri umræðu en skv. lögum skal fara fram tvær umræður með hálfsmánaðar millibili. Þó hafa nær aldrei verið neinar umræður um fjárhagsáætlunina við sk. fyrri umræðu og sagði bæjarstjóri á fundinum í dag að hefð væri fyrir að beðið væri með umræður til seinni umræðna. Var upplýst á fundinum að bæjarfulltrúar voru að sjá fjárhagsáætlunina rétt fyrir fundinn en hún var kynnt á lokuðum fundi áður en bæjarstjórnarfundur hófst.

Segir Rósa Guðbjartsdóttir í tilkynningu að þótt heimsfaraldur setji tímabundið mark sitt á afkomu bæjarsjóðs þá séu undirstöðurnar traustar og sóknarhugur í Hafnfirðingum. „Mestu skiptir að verja þjónustuna og hag íbúa og að tryggja að bærinn snúi vörn í sókn eins skjótt og verða má. Sala á hlut í HS Veitum hjálpar okkur mjög mikið í viðspyrnunni og kemur í veg fyrir að lagðir séu skuldaklafar á bæjarfélagið. Við munum halda áfram að byggja upp í Hafnarfirði og er áformað að fjárfesta fyrir rúma fjóra milljarða króna á næsta ári, sem er aukning um meira en milljarð á milli ára,“ segir Rósa m.a. í tilkynningunni.

Áfram skilar Vatnsveita og Fráveita miklum hagnaði

Það vekur athygli að, þrátt fyrir að upplýst sé um lækkun vatns- og fráveitugjalda til að koma til móts við hækkun fasteignamats, þá er samt gert ráð fyrir að Vatnsveitan skili 201 milljón kr. hagnaði sem er 44,7% af rekstrartekjum.

Á sama hátt er gert ráð fyrir 455 milljón kr. hagnaði af rekstri Fráveitu en það er 51,1% af rekstrartekjum.

Er þetta þrátt fyrir að álagsprósenta vatnsgjalds lækkar úr 0,054% í 0,052% og holræsagjalds úr 0,120% í 0,116% en bæði þessi gjöld eru miðuð við fasteignamat.

Álagsprósenta fasteignaskatts lækkar en skatttekjur aukast um 3,4%

Fasteignaskattshlutfall íbúðarhúsnæðis lækkar úr 0,25% í 0,258% sem á að koma til móts við hækkun fasteignamats. Þó er gert ráð fyrir að tekjur Hafnarfjarðarbæjar af fasteignasköttum af íbúðarhúsnæðis hækkar um 3,4% eða um 47,2 milljónir kr.

Fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði hækkar um 4,6%

Fasteignaskattshlutfall atvinnuhúsnæðis verður óbreytt 1,4% og vegna hækkunar heildarfasteignamats atvinnueigna hækka tekjur Hafnarfjarðarbæjar af atvinnuhúsnæði um 90,3 milljónir kr.

Helstu framkvæmdir árið 2021

Fjárheimild til framkvæmda árið 2021 er samtals 4.283 milljónir króna. Áfram verður unnið að uppbyggingu Suðurhafnar auk þess sem lögð verður áhersla á frágang gönguleiða o.fl. við Norðurbakka. Töluverðar framkvæmdir verða í gatnagerð, m.a. við Ásvallabraut og Hamranes, auk þess sem farið verður í endurnýjun gatnalýsingar víða í bænum. Stefnt er að umtalsverðum fjárfestingum í félagslegu húsnæði. Undirbúningur og uppbygging íþróttamannvirkja mun halda áfram og felast meðal annars í endurnýjun grasvalla og annarrar aðstöðu, auk endurgerðar Suðurbæjarlaugar. Kraftur verður settur í endurnýjun St. Jósefsspítala og gamla Sólvangs. Þá verður lögð áhersla á uppbyggingu í fráveitumálum og viðhald vatnsveitu.

Meðal þess sem finna má í framkvæmdaáætlun 2021 er: 500 milljónir kr. far í fjárfestingu í íbúðum fyrir Húsnæðisskrifstofu, 450 milljónir kr. fara í gerð Ásvallabrautar, 280 milljónir kr. fara í endurgerð St. Jósefsspítala, 250 milljónir kr. í endurgerð Sólvangs, 200 milljónir kr. fara í endurnýjun grasvalla og 150 milljónir kr. fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja en gert hefur verið samkomulag um byggingu nýrrar reiðhallar fyrir Sörla og knatthúss fyrir Hauka.

Lánsfjárþörf 2021 haldið í lágmarki

Þrátt fyrir að fjárhagsáætlun 2021 geri ráð fyrir umtalsverðu tapi er lánsþörf á árinu í lágmarki, þar sem að söluandvirði hluta í HS Veitum verður greitt á fyrstu mánuðum ársins. Gert er ráð fyrir 1.750 milljónum króna í lántökur en afborganir lána nema alls 2.030 milljónum króna, eða tæplega 300 milljónum króna umfram lántökur. Þannig er gert ráð fyrir að skuldaviðmið verði um 114% í árslok 2021 en til samanburðar var hlutfallið 112% í árslok 2019 áður en heimsfaraldurinn skall á.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2021

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta neikvæð um 1.221 milljón króna.
  • Skuldaviðmið 114% í árslok 2021.
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 1,7 milljarðar króna eða tæp 5,5% af heildartekjum.
  • Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,48%.
  • Heildarálagning fasteignagjalda lækkar með lægri fasteignasköttum og vatns- og fráveitugjöldum til að koma til móts við hækkun fasteignamats.
  • Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir árið 2021 haldist óbreytt eða hækki í takt við vísitölu.
  • Áætlun gerir ráð fyrir lóðasölu að andvirði 500 milljónir króna.
  • Áætlaðar fjárfestingar nema samtals 4,3 milljörðum króna.
  • Kaup á félagslegum íbúðum nema 500 milljónum króna.

Fylgigögn

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2